„Það var mjög sérstakt að koma inn í sjávarútvegsráðuneytið á þessum tíma. „Dugnaðarforkarnir“ sem stýrðu LÍÚ töldu sig eiga fiskinn syndandi í sjónum, tröppurnar í ráðuneytinu og stólana við fundarborðið eins og áður,“ segir Jón Bjarnason, fyrrverandi þingmaður VG og sjávarútvegsráðherra, í grein um makrílmálið svokallaða í Morgunblaðinu í dag.
Jón var sjávarútvegsráðherrann sem setti reglugerðirnar sem sjö íslenskar útgerðir kröfðust 10 milljarða skaðabóta út af vegna úthlutunar á makríl á árunum 2011 til 2018. Fimm af útgerðunum hafa nú þegar dregið skaðabótakröfur sínar á hendur íslenska ríkinu til baka. Tvær útgerðir hafa hins vegar ákveðið að halda málinu til streitu, Vinnslustöðin í Vestmanneyjum og Huginn.
„Mikið vill meira segir gamall málsháttur“
Grein Jóns er afhjúpandi meðal annars vegna þess andrúmslofts sem Jón lýsir að hann hafi gengið inn í þegar hann varð sjávarútvegsráðherra; andrúmsloft sem var gegnumsýrt af freku margra útgerða, líkt og tilvitnunin í Jón hér að ofan lýsir. „Mikið vill meira segir gamall málsháttur,“ segir Jón líka á öðrum stað í greininni þegar hann lýsir heimtufrekju útgerðanna.
Gagnrýnir Hæstarétt
Í greininni lýsir Jón sýn sinni á þetta mál sem mikið hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi á liðnum vikum og kveikt upp umræðuna um eðli kvótakerfisins og réttlæti í miðjum COVID-faraldrinum. Í tengslum við málið sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra til dæmis að kvótakerfið væri ekki „náttúrlögmál“ heldur „mannanna verk“ og ýjaði að því að vel væri hægt að breyta því ef svo bæri undir.
Ástæða þess að málið kemur upp núna er að Kristján Þór Júlíusson, núverandi sávarútvegsráðherra, birti svar við spurningu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á vef Alþingis.
Jón var sá sem bar ábyrgð á reglugerðunum og því var það hann sem var pólitískt ábyrgur fyrir því þegar Hæstiréttur Íslands dæmdi tveimur af útgerðunum sjö í hag í málinu í lok árs 2018. Niðurstaða Hæstaréttar var að útgerðirnar tvær hefðu orðið fyrir fjártjóni út af embættisfærslum Jóns Bjarnasonar vegna þess að þær hafi ekki fengið úthlutað nægilega miklum makrílkvóta á árunum 2011 til 2018 út frá veiðireynslu áranna á undan. Markmið Jóns, eins og hann lýsir í greininni, var hins vegar að hleypa fleiri og minni útgerðum að makrílnum en ekki bara þeim „bræðsluútgerðum“ sem höfðu veitt og brætt makríl niður í „guanó“ (dýrafóður) árin þar á undan.
Jón segir hins vegar í grein sinni í Morgunblaðinu að hann sé og hafi verið ósammála þessum dómi. Telur Jón að Hæstiréttur Íslands hafi í því dæmt „gegn þjóðarhag“: „Það er mín skoðun að hæstiréttur hafi brugðist þjóðinni í þessu máli og gengið í lið með einstökum „kvótagreifum“ og dæmt gegn þeirri lagagrein sem honum bar fyrst og fremst að horfa til, það er: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Þessi dómur sýnir fram á hversu andstæð lagatúlkun getur verið hagsmunum þjóðarinnar.“
Telur sig hafa breytt rétt
Jón segir í greininni að þær útgerðir sem hafi reynst honum erfiðustar þegar hann var ráðherra gangi nú frá makrílmálinu án þess að hafa haft neitt upp úr því. „Þær útgerðir sem reyndust mér erfiðastar á sínum tíma ganga nú frá borði með „öngulinn í rassinum“ eins og sagt er, hvort sem þær gefa frá sér þessar bótakröfur vegna makríls eða ekki. Þær eiga líka eftir að sanna tjón sitt vegna reglugerðarinnar sem er þeim ekki svo auðvelt,“ segir Jón en eins og áður segir hafa Vinnslustöðin og Huginn ekki horfið frá kröfum sínum.
„Þær útgerðir sem reyndust mér erfiðastar á sínum tíma ganga nú frá borði með „öngulinn í rassinum“
Jón er ennþá á þeirri skoðun, þrátt fyrir dóm Hæstaréttar um tjón Ísfélagsins og Hugins, að ákvarðanir hans um að setja reglugerðirnar hafi verið réttar. „Það er staðföst skoðun mín að aðgerðir sjávarútvegsráðuneytisins á þessum örlagatímum – þar með talið varðandi makrílveiðar – hafi átt drjúgan þátt í því að leiða þjóðina út úr þrengingum fjármálahrunsins. Samkvæmt opinberum tölum urðu til um 2.000 ný ársstörf beint í sjávarútvegi og fiskvinnslu á árunum 2009 til 2012 sem þýðir margfalt fleiri störf yfir sumartímann þegar verkefni skorti. Auk þess varð til fjöldi afleiddra starfa við breytta tækni- og fagvinnu. Það er sá minnisvarði sem ég vona að standi – óbrotgjarn – um tíð mína sem sjávar- útvegsráðherra. Hins vegar vil ég með þessari stuttu grein gefa lesendum færi á að dæma sjálfir. Mætti ef til vill horfa til þessarar nálgunar minnar við nýtingu náttúruauðlinda landsins í þeim þrengingum sem þjóðin nú stendur frammi fyrir,“ segir Jón.
Eitt af því sem Jón nefnir sérstaklega er að reglugerðirnar sem hann setti hafi gert það að verkum að 90 prósent makrílsins hafi í kjölfarið verið veiddur og nýttur til manneldis en ekki bræddur í guanó og að þetta hafi falið í sér aukna verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið. Hann segir að þrisvar sinnum hærra verð fáist fyrir makrílinn þegar hann er nýttur til manneldis en sem dýrafóður.
Athugasemdir