Samtök atvinnulífsins voru á meðal þeirra aðila sem félagsmálaráðuneytið átti óhefðbundið samráð við þegar hlutabótaleiðin svokallaða var útfærð og lagasetningin undirbúin. Eftir að hlutabótafrumvarpið varð að lögum hafa svo samtökin bent fyrirtækjum á að þau geti notað leiðina til að spara sér kostnaðinn af því að segja upp starfsfólki, það er varpað stórum hluta kostnaðarins af launagreiðslum í uppsagnarfresti yfir á atvinnuleysistryggingasjóð.
Stöð 2 hefur sagt fréttir af þessu undanfarna daga og SA gengist við því að hafa túlkað lögin með þeim hætti að þetta mætti. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við Stundina í dag að hún hafi ekki haft hugmyndaflug í að hlutabótaleiðin yrði nýtt með þessum hætti. „Mér datt til dæmis ekki í hug að einhver héldi að hann gæti sett starfsfólk á hlutabætur en svo sagt viðkomandi starfsmanni upp störfum,“ segir hún.
Upplýsingarnar um samráðið sem haft var við Samtök atvinnulífsins við smíði laganna koma fram í greinargerð frumvarps Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra sem samþykkt var þann 20. mars síðastliðinn. Þar segir að ekki hafi gefist svigrúm til „hefðbundins samráðs“ enda frumvarpið samið við fordæmalausar aðstæður. „Þess ber þó að geta að frumvarpið var samið í samráði ráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Vinnumálastofnunar.“ Í greinargerðinni er sérstaklega tekið fram að samtök atvinnurekenda ætli að „hvetja fyrirtæki sem eiga í tímabundnum rekstrarvanda til að nýta þann kost að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna tímabundið fremur en að grípa til uppsagna“.
Munu ekki greiða hlutabætur í uppsagnarfresti
Haft var eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA, á Vísi.is fyrr í vikunni að samtökin teldu unnt að túlka lögin þannig að heimilt væri að gera samning um hlutaatvinnuleysisbætur á uppsagnartíma. Lögfræðingar sem Stundin hefur rætt við eru sammála um að lagatextann megi túlka með þessum hætti þótt augljóst sé að tilgangur laganna hafi verið sá að viðhalda ráðningarsamböndum, skapa hvata til að atvinnurekendur haldi í starfsfólk frekar en að reka það.
Vinnumálastofnun hefur nú tilkynnt að engar hlutabætur verði greiddar til starfsmanna sem eru á uppsagnarfresti. Á vef Eflingar stéttarfélags er félagsmönnum bent á að ef þeim sé sagt upp eftir að hafa gert samkomulag við vinnuveitanda um minnkað starfshlutfall og hlutabætur þá falli það samkomulag úr gildi og atvinnurekanda beri þá að greiða laun í uppsagnarfresti miðað við kjör sem giltu áður en samkomulagið var gert.
„Samtök atvinnulífsins hafa ekki úrskurðarvald um rétt einstaklinga til atvinnuleysisbóta og munu hér eftir beina því til aðildarfyrirtækja að haga uppsögnum og samningum um hlutastörf til samræmis við túlkun Vinnumálastofnunar,“ segir á vef SA. „Óvissa um framkvæmd megi ekki bitna á starfsfólki fyrirtækjanna.“
Athugasemdir