Útgerðin Huginn ehf. í Vestmannaeyjum ætlar ekki að hætta við skaðabótamál sitt gegn íslenska ríkinu í makrílmálinu að svo stöddu. Þetta segir Páll Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri og einn af hluthöfum Hugins. Útgerðin hefur krafið íslenska ríkið um 839 milljónir króna í skaðabætur út af meintri ólöglegri makrílúthlutun á árunum 2011 til 2018 þar sem félagið telur sig hafa borið skarðan hlut frá borði.
Í gær tilkynnti Ísfélagið, ásamt fjórum öðrum makrílútgerðum, að félagið ætlaði ekki að halda skaðabótamáli sínu til streitu eftir hörð viðbrögð í samfélaginu síðastliðna daga. „Minn hugur er að klára þetta. En auðvitað getur þetta breyst nánast hvenær sem er ef maður á að vera hreinskilinn. Í dag þá vil ég klára þetta en ég ræð þessu auðvitað ekki einn,“ segir Páll Þór sem á tæplega 14 prósenta hlut í Huginn ehf.
Fékk makrílkvóta upp á um 6 milljarða
Huginn fekk úthlutað makrílkvóta í fyrra til frambúðar, þegar fisktegundin var kvótasett, og ræður nú yfir 6,6 prósentum kvótans. Áætlað markaðsvirði þessa kvóta er tæplega 5.9 milljarðar króna.
Útgerðin rekur frystitogarann Huginn VE-55 og er önnur þeirra útgerða sem leitt hefur málareksturinn gegn íslenska ríkinu síðastliðin ár út af makrílúthlutuninni á árunum 2011 til 2018. Hin útgerðin var Ísfélag Vestmannaeyja.
Skaðabótakröfur útgerðanna sjö hafa vakið mikla athygli í vikunni eftir að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra birti svar um fjárhæðir stefnanna nú um helgina. Samtals kröfðu sjö útgerðir ríkið um 10,2 milljarða króna í málunum.
Binni svaf á málinu
Huginn og Vinnslustöðin í Vestmanneyjum voru hins vegar ekki meðal þeirra fimm útgerða sem sendu frá fréttatilkynninguna um að hætt hefði verið við skaðabótamálin.
Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, eða Binni eins og hann er alltaf kallaður, segir í samtali við Moggann í dag að stjórnarfundur verði haldin hjá fyrirtækinu í dag þar sem tekin verður ákvörðun um hvort stefnunni verður haldið til streitu eða ekki. „Við ætlum að sofa á þessu, taka stjórnarfund á morgun og fara yfir málið,“ segir Binni við blaðið.
Vinnslustöðin stærsti einstaki hluthafinn
Vinnslustöðin á 48 prósenta hlut í Huginn á móti 52 prósenta hlut Páls og meðfjárfesta hans. „Við ætlum að vera rólegir bara. Það eru þrjú ár í dómsniðurstöðu í þessu máli. Það þarf ekkert að hætta í dag. Það er hægt að hætta hvenær sem er ef menn vilja hætta“ segir Páll Þór.
„Ég sé ekkert að því við höldum okkar máli til streitu sama hvað Vinnslustöðin gerir“
Aðspurður um hvort niðurstaða Vinnslustöðvarinnar, sem væntanlega verður kynnt í dag, muni hafa áhrif á hvaða niðurstöðu Huginn muni komast að í málinu segir Páll að auðvitað fylgist þeir með þvi sem Vinnslustöðin gerir en að þetta séu tvö sjálfstæð félög. „Þeir eiga 48 prósent og við eigum 52 prósent þannig að við ráðum þessu. […] Ég sé ekkert að því við höldum okkar máli til streitu sama hvað Vinnslustöðin gerir. Þetta eru tvær kennitölur,“ segir Páll Þór.
Hafa leitað réttar síns lengi
Huginn hefur leitað réttar síns í málinu í mörg ár ásamt Ísfélaginu. Vatnaskil urðu í því í lok árs 2018 þegar Hæstiréttur felldi dóma þess efnis að félögin hefðu orðið fyrir fjártjóni út af makrílúthlutunum á árunum 2011 til 2018 sem byggðu á reglugerðum sem þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, setti. Niðurstaða hæstaréttar var að makrílnum hafi ekki verið úthlutað að fullu út frá veiðireynslu útgerðanna á makríl, líkt og gera hefði átt.
„En ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag þá er það einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur“
Málið er því ekki nýtt og hefur margoft verið rætt í fjölmiðlum. Opinberunin á stefnufjárhæðum útgerðanna sem og COVID-faraldurinn setja málið í nýtt samhengi sem hörð og afgerandi viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem bæði hafa gagnrýnt útgerðirnar sjö fyrir skaðabótamálin.
Athugasemdir