Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist tilbúin til að hitta Dag B. Eggertsson borgarstjóra á fundi til að ræða kjaradeilu stéttarfélagsins við borgina eins og Dagur bauð í gær á Facebook-síðu sinni. Hún setur þó tvö skilyrði fyrir því og gangi Dagur að þeim segist Sólveig tilbúin til að hitta hann á fundi hvenær sem honum henti.
Klukkan ellefu árdegis í gær sendi Efling Degi tilboð um tveggja sólarhringa frestun á verkfalli stéttarfélagsins. Svo að til þess kæmi fór Efling hins vegar fram á að Dagur undirritaði svokallað Kastljóstilboð, tilboð sem Dagur setti fram í Kastljósi 19. febrúar síðastliðinn. Það innibar að hækkun grunnlauna Eflingarfólks yrðu á bilinu 100 til 110 þúsund krónur á samningstímanum. Tilboðið tók ekki til annarra þátta, svo sem álagsgreiðslna eða uppbóta.
Tilboð Eflingar stóð til klukkan fjögur síðdegis í gær en ekkert svar barst frá borgarstjóra fyrir þann tíma. Dagur birti hins vegar á sjötta tímanum í gær færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagðist fagna því að Efling opnaði á að fresta verkfalli. „Ég stend að sjálfsögðu við allt sem ég sagði í Kastljósi á sínum tíma en það er ekki gagnlegt þegar reynt er að að snúa út úr þeim yfirlýsingum eða standa í skeytasendingum í fjölmiðlum til að leysa kjaradeilur. Gott tilboð borgarinnar um að hækka laun Eflingarfólks hjá borginni liggur fyrir, með sérstakri áherslu á að bæta lægstu laun og kjör kvennastétta. Tilboðið er á grunni lífskjarasamninganna, með lengingu orlofs og útfærslu á styttingu vinnuvikunnar. Í stað þess að standa í frekari skeytasendingum í fjölmiðlum vil ég bjóða Sólveigu Önnu formann Eflingar til fundar til að ræða hina erfiðu stöðu viðræðna og hvar ber á milli aðila.“ Þetta svar sendi Dagur á Eflingu, eftir klukkan fjögur í gær.
Sólveig Anna hefur nú svarað Degi, á hans Facebook-síðu, og segist tilbúin til að hitta hann á fundi svo sem hann leggi til, en þó með tveimur skilyrðum. „Í fyrsta lagi að þú birtir opinberlega það tilboð (glærurnar) sem samninganefnd minni var kynnt á samningafundi 19. febrúar, daginn sem þú mættir í Kastljóssviðtalið, þannig að allir geti borið tilboðið saman við ummæli þín í Kastljósinu.
Í öðru lagi að þú fallist á að mæta mér eða öðrum fulltrúa Eflingar í setti í útvarps- eða sjónvarpsviðtali áður en vikan er úti.
Ef þú fellst á þetta þá skal ég koma og hitta þig til fundar á hvaða tíma sem hentar þér.
Kveðja, Sólveig Anna Jónsdóttir.“
Athugasemdir