„Dvalarleyfi þýzkum Gyðingahjónum neitað þareð ríkisstjórnin principielt mótfallin veita þýzkum Gyðingum dvalarleyfi Íslandi.“ Svona hljóðaði svar Sveins Björnssonar, sendiherra í Danmörku og síðar forseta Íslands, árið 1938 þegar þess var farið á leit við Íslendinga að taka við gyðingum á flótta eftir að Hitler komst til valda.
Ári síðar fór Agnar Kofoed-Hansen, nýskipaður ríkislögreglustjóri á Íslandi, á sumarnámskeið hjá SS-sveitum nasista í Þýskalandi og stofnaði í framhaldinu „eftirgrennslanadeild“ hjá hinu nýstofnaða Útlendingaeftirliti, stofnun sem í dag heitir Útlendingastofnun. Á þessum tíma var rekin skýr kynþáttastefna á Íslandi.
Tímarnir hafa blessunarlega breyst. Ríkisstjórnin gefur ekki lengur út yfirlýsingar um það hvort einstaka hópar fólks séu ákjósanlegir. Núna sér kerfið um að flokka fólk.
Á hverju ári flytur á annan tug þúsunda erlendra ríkisborgara til landsins. Kerfið hleypir öllum í gegn frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins sem þurfa engin ferli eða leyfi til að flytjast hingað. Til viðbótar veitir Útlendingastofnun dvalarleyfi þeim sem koma til náms tímabundið, til að vinna fyrir íslensk fyrirtæki eða giftast íbúum Íslands. Fáum þeirra er hafnað.
Svo eru það þeir sem sækja um alþjóðlega vernd. Fólk sem óttast ofsóknir í heimalandi sínu vegna kynþáttar síns, trúarbragða, þjóðernis og stjórnmálaskoðana eða á hættu á pyndingum eða dauðarefsingu. Fólk sem er ekki frá löndum á lista Útlendingastofnunar yfir „örugg ríki“, það er fólk sem er utan Evrópu og Norður-Ameríku.
Í fyrra veitti Útlendingastofnun um þriðjungi umsækjenda vernd. Einstaka sinnum komast mál þeirra í hámæli í fjölmiðlum, en við heyrum ekkert framar frá flestum sem er synjað um vernd eða sendir til annarra landa til afgreiðslu.
„Ráðherra hefur ekki heimild til að grípa inn í einstök mál umsækjenda,“ sagði dómsmálaráðherra í samhengi við mál íransks drengs sem vísa átti úr landi nýlega. Þetta er rétt hjá henni. Það er alveg skýrt í hvaða flokki barnið er. Kerfið sér um málið.
Athugasemdir