Skipulags- og umhverfisráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Sjálfstæðisflokksins um að hætta að birta efni úr rafrænum eftirlitsmyndavélum sínum á vefnum.
Umhverfis- og skipulagssvið starfrækir átta eftirlitsmyndavélar í borginni með það að markmiði að fylgjast með færð vega. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins líta ekki svo á að fylgjast þurfi með færð á sumrin og ekki að efnið þurfi að vera aðgengilegt öllum á vefsíðu Vegagerðarinnar,“ segir í tillögunni, sem Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir stóðu að. „Þegar kemur að rafrænu eftirliti er mikilvægt að stíga varlega til jarðar. Friðhelgi einkalífsins á að vega þyngra en þörf almennings til að fylgjast með umferð og færð á vegum í þéttbýli.
Tillagan var lögð fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og var hún samþykkt með stuðningi allra fulltrúa nema Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. „Vegaeftirlitið er framkvæmt í öryggisskyni og er haldið úti á 8 stöðum í borginni á snjóþyngstu svæðunum og því haldið úti með rafrænum hætti með myndavélum sem taka mynd á 5- 10 mínútna fresti þar sem einstaklingar og bílnúmer eru ekki greinanleg,“ lét hún bóka á fundi ráðsins. „Þessi vöktun auðveldar íbúum að fylgjast með færð og ýtir undir umferðaröryggi. Með ofangreindar staðreyndir í huga að ekki sé hægt að greina persónur og bílnúmer er ekki séð að það bitni á friðhelgi einkalífsins.“
Eftirlitsmyndavélum hefur fjölgað víða um land á undanförnum árum. Embætti Ríkislögreglustjóra hefur aukið við geymslugetu miðlægs gagnagrunns síns, sem hefur gefið lögregluembættum víða um land tækifæri til að fjölga eftirlitsmyndavélum.
Athugasemdir