Í bók sinni The Rhetoric of Reaction fjallar hagfræðingurinn Albert Hirschman um það hvernig andstæðingar umbóta slá þær niður. Samkvæmt Hirschman eru viðbrögðin einkum þrenns konar: 1) Umbætur eru sagðar beinlínis skaðlegar fyrir hópana sem þær eiga að hjálpa; 2) þær eru sagðar gagnslausar; eða 3) það er fullyrt að þær feli í sér hættu á öðrum sviðum. Dæmi um fyrstu viðbrögðin eru til dæmis hugmyndir um að örlátara örorkulífeyriskerfi muni einungis fjölga öryrkjum enda muni fullfrískt fólk flykkjast í örorkumat. Dæmi um önnur viðbrögðin eru til dæmis hugmyndir um að örlátari húsnæðisbætur muni ekki auðvelda fólki að koma sér þaki yfir höfuðið enda muni hækkun bóta einfaldlega skila sér beint út í húsnæðisverðið. Þriðju viðbrögðin birtast meðal annars í hugmyndum um að hækkun tekna lágtekjufólks muni ógna stöðugleikanum.
Vandamálið er ekki að slíkar fullyrðingar séu alltaf ósannar. Sagan er full af hvers kyns íhlutunum sem reyndust skaðlegar fyrir hópana sem átti að hjálpa, árangurslausar eða skaðlegar í víðara samhengi. Vandamálið er fremur hvernig slíkar fullyrðingar eru settar fram: Það er augljóst og óhjákvæmilegt að ... umræðu lokið. Ekkert svigrúm fyrir umræðu um hversu líklegur skaðinn, árangursleysið eða áhættan er og þaðan af síður um aðrar hliðar á málinu.
Höfrungahlaup og stöðugleiki
Viðbrögðin við kröfum Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hafa einkum verið af þriðju gerðinni, að það sé skaðlegt ef borgin kemur til móts við þær. Ekki bara fyrir láglaunafólkið sjálft heldur fyrir samfélagið í heild sinni. Hugmyndin um höfrungahlaupið svokallaða er dæmi um þetta. Ef launalægsta starfsfólk Reykjavíkurborgar fengi ríflegri hækkanir en annað launafólk þá muni það hrinda af stað höfrungahlaupi. Lærðir leikskólakennarar munu ekki sætta sig við of lítinn mun á þeim og ófaglærðu starfsfólki leikskólanna. Grunnskólakennarar munu ekki sætta sig við of lítinn mun á þeim og leikskólakennurum. Ferlið heldur áfram út í það óendanlega þar til hátekjuhópar krefjast sömu hlutfallslegu hækkana og tekjulægsta starfsfólk Reykjavíkurborgar. Allir fá fleiri krónur, en verðbólgan fer á fullt þannig að kaupmátturinn eykst ekki, stöðugleikinn fer fyrir lítið, forsendur lífskjarasamningsins bresta, allt í volli.
Sagan um höfrungahlaupið er ekki úr lausu lofti gripin. Stéttir taka mið af starfskjörum annarra stétta þegar þær verðleggja sig og stéttarfélög horfa til kjarasamninga annarra félaga þegar þau móta kröfur sínar. Spurningin er kannski frekar hvort það leiðir óhjákvæmilega til svokallaðs höfrungahlaups allra stétta ef fólkið með lægstu launin í íslensku samfélagi fær hækkanir umfram aðra. Það er hugsanlegt en alls ekki sjálfgefið. Það geta komið upp aðstæður þar sem það eru brýnar ástæður til að bæta tekjur tiltekinna starfsstétta umfram aðrar og með samráði allra aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera á að vera hægt að draga úr hvers kyns keðjuverkunum á launakröfur annarra starfsstétta. Ég er ekki að segja að það sé endilega auðvelt en gerlegt með vilja og útsjónarsemi.
Mönnun leikskóla borgarinnar
Einn áreiðanlegasti fyrirboðinn um sumarlok á Íslandi er umræðan um mönnun leikskólanna. Í Reykjavík er nýr árgangur tekinn inn í lok ágúst á hverju ári, þegar elsti leikskólaárgangurinn færist yfir í grunnskóla. Á hverju ári er talið niður í þessa stóru viðburði í lífi barnanna okkar, ekki í dögum heldur í ómönnuðum stöðugildum í leikskólunum. Embættismenn lýsa áhyggjum sínum af því að það verði að fresta inntöku einhverra barna. Borgin fer í samfélagsmiðlaherferð þar sem reynt er að narra ungt fólk til að vinna með framtíð landsins og mikilvægi starfsins tíundað. Svo í upphafi september öndum við öll léttar þegar embættismenn boða okkur þann mikla fögnuð að það hafi fundist pláss fyrir öll börn á leikskólum borgarinnar. Leikskólarnir eru að vísu ekki fullmannaðir. Það halda áfram að berast fréttir af undirmönnun en kerfið rúllar einhvern veginn, bara nokkrir dagar á ári þar sem foreldrar þurfa að hafa börnin sín heima vegna manneklu.
Þetta er auðvitað samhengið sem gat af sér nýlega tilraun Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar til að stytta að opnunartíma leikskólanna. Lausnin er í sjálfu sér alveg rökrétt. Ein leið til að takast á við viðvarandi manneklu leikskólanna er að stytta opnunartímann og ná þannig betri nýtingu á þeim mannskap sem er til staðar. Það leysir að vísu ekki vandamálið heldur felur í sér uppgjöf gagnvart því. Það virðist vera alger skortur á pólitískum vilja til að takast á við manneklu leikskólanna og þá er ekkert að gera annað en að aðlaga starfsemi leikskólanna að þeim raunveruleika.
„Þetta er ein leið að kulnun í starfi.“
Mannekla er líklega stærsta vandamál leikskóla borgarinnar. Manneklan er hins vegar fjölþætt vandamál. Í fyrsta lagi er basl að manna leikskólana. Í öðru lagi er það starfsmannavelta. Í þriðja lagi er ófullnægjandi hlutfall af menntuðum leikskólakennurum. Starfsmannaveltan hefur ekki fengið neina sérstaka athygli í umræðunni en það má ætla að hröð starfsmannavelta sé ekki heppileg hvað varðar líðan barnanna og að auki getur hún aukið álag á það starfsfólk sem endist í starfi. Deildarstjóri á einum leikskóla borgarinnar útskýrði þetta þannig fyrir mér að þegar nýtt starfsfólk stoppar stutt er stöðugt viðbótarálag af því að þjálfa nýtt fólk og á einhverjum tímapunkti gefst það upp og gerir flest sem kallar á þekkingu og reynslu sjálft. Niðurstaðan er samt sú sama, aukið álag vegna starfsmannaveltu og verri starfsgæði sem því nemur. Þetta er ein leið að kulnun í starfi.
Rót vandans
Í launarannsókn Hagstofu Íslands má sjá að árið 2018 (nýjustu gögn sem eru til) var ófaglært starfsfólk leikskólanna sú starfsstétt sem hafði lægstu launin. Heildarlaunin námu 370 þúsund krónum á mánuði að meðaltali. Við gætum stoppað hér, bent á að Reykjavíkurborg heldur því fram í kynningarefni sínu að þetta séu mikilvægustu störfin, að fólkið sem sinnir þeim sé að vinna með framtíðina. Fyrir mitt leyti er ég sammála báðum fullyrðingum. Launakjörin eru klárlega ekki í samræmi við mikilvægi starfanna. Maður kemst þó yfirleitt ekki mjög langt með að benda á misræmi á milli orða þeirra og gjörða. Kannski praktískari nálgun virki betur.
„Ófaglært starfsfólk getur fengið um 15% hærri heildarlaun í ræstingum“
Mannekla er stórt vandamál fyrir leikskóla borgarinnar. Lausnin á því er að lokka til sín og halda í starfsfólk. Það virðist ekki ganga neitt sérstaklega vel. Ég ætla að hætta mér út á ísinn og halda því fram að stærsta vandamálið séu launin. Ófaglært starfsfólk getur fengið um 15% hærri heildarlaun í ræstingum (miðað við launarannsókn Hagstofu Íslands árið 2018), 18% hærri laun fyrir að afgreiða í dagvöruverslun, 24% hærri laun fyrir að vinna við handpökkun og aðra verksmiðjuvinnu og 32,5% hærri laun við glugga- og bílaþvott, svo dæmi séu nefnd. Punkturinn er auðvitað ekki sá að þessar starfsstéttir hafi of há laun. Þetta er spurning um framboð og eftirspurn. Ef þú færð ekki nægilegt framboð af vinnuafli í tiltekin störf á þeim kjörum sem þú býður þarftu að bjóða betur. Raunveruleikinn sem leikskólarnir standa frammi fyrir er að ófaglært fólk getur einfaldlega þénað betur í öllum öðrum störfum sem standa þeim til boða. Í þeim aðstæðum eru störf á leikskólum ekki fýsilegur kostur nema hugsanlega sem biðleikur á meðan fólk leitar að einhverju betra.
Störf við leikskóla borgarinnar þurfa að vera eftirsóknarverð störf fyrir ófaglært starfsfólk, góður kostur í samanburði við önnur störf sem eru í boði. Ef því er náð höfum við stigið skref í að leysa mönnunarvanda leikskólanna með því að draga úr manneklu og starfsmannaveltu.
Leikskólastörf eru verðlögð of lágt
Slík breyting myndi nánast óhjákvæmilega hafa áhrif á launakröfur leikskólakennara. Það vill svo til að við þurfum ekki bara að gera störf á leikskólunum eftirsóknarverð heldur þurfum við líka að gera það eftirsóknarverðara fyrir fólk að fara í leikskólakennaranám og starfa sem leikskólakennarar að námi loknu.
Því er gjarnan haldið fram að leikskólarnir séu fyrsta skólastigið og vísað í lög nr. 90 frá 2008 um leikskóla. Ég er sammála því að leikskólarnir eigi að vera fyrsta skólastigið en ég er ögn skeptískur á að þeir standi undir því eins og málum er háttað. Það er ekki nóg að binda það í lög að leikskólarnir séu fyrsta skólastigið. Það hefur enga merkingu nema leikskólarnir fái þær bjargir sem þeir þurfa til að rækja þetta mikilvæga hlutverk.
Sem mælikvarði á hvað það er langt í land hvað þetta varðar má benda á lög nr. 95 frá 2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í þeim lögum er kveðið á um að a.m.k. 2/3 hluti stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast stöðugildi kennara. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar, frá 2018, voru tæp 23% starfsfólks leikskóla borgarinnar lærðir leikskólakennarar og 21% með aðra uppeldismenntun, samtals 44% (en eiga að vera 66,7%). Þróunin hefur heldur ekki verið í rétta átt á undanförnum árum, en hlutfallið var tæplega 52% árið 2011.
Í stuttu máli, störf á leikskólum eru einfaldlega verðlögð of lágt miðað við þau markmið sem við höfum sett leikskólastiginu. Það eru því ríkar ástæður til að leiðrétta launakjör starfsfólks leikskólanna, faglærðra sem ófaglærðra, það er að hækka laun þessara hópa umfram aðra.
Aftur að Eflingu
Kröfur Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg snúast ekki bara um ófaglært starfsfólk leikskólanna en sú starfsstétt er hins vegar umtalsverður hluti þeirra borgarstarfsmanna sem kröfurnar ná til, eins og við sem eigum börn í leikskólum fengum að finna fyrir í þessari viku sem er að líða. Tölur Hagstofunnar benda jafnframt til þess að ófaglært starfsfólk leikskólanna sé fyrirferðarmikill hópur á meðal þeirra sem hafa lægstu launin hjá Reykjavíkurborg.
Undanfarið hafa ýmsir tjáð sig um þessar kröfur, yfirleitt á svipuðum nótum og þeim sem Albert Hirschman rakti í bókinni sinni The Rhetoric of Reaction, sem var fjallað um í upphafi þessa pistils. Það er auðvitað hugsanlegt að hrakspárnar rætist ef borgin gengst við kröfum Eflingar. Hugsanlegt, ekki óhjákvæmilegt. Kannski ekki einu sinni sennilegt. Á hinn bóginn búum við nú þegar við viðvarandi krísuástand í mönnun leikskóla borgarinnar. Að koma til móts við kröfu Eflingar væri skref í áttina að því að leysa þann vanda, hvað annað sem má segja um þær. En samt bara skref.
Það er ekki nóg að tala um leikskólana sem fyrsta skólastigið. Það er heldur ekki nóg að festa það í lög. Við höfum sett leikskólunum háleit og mikilvæg markmið. Þeir þurfa bjargir til að geta uppfyllt þau markmið. Án öruggrar mönnunar, minni starfsmannaveltu og aukins framboðs af menntuðum leikskólakennurum er allt tal um fyrsta skólastigið hjóm.
Athugasemdir