Reykjavíkurborg þarf að grípa til aðgerða til að bæta aðgengi innflytjenda að ábyrgðarstörfum innan borgarkerfisins og möguleikum til starfsþróunar. Þetta er mat fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar sem samþykkt var á fundi þess á mánudag.
Á fundinum var kynnt skýrsla um jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið í fyrra. Í henni kemur fram að margskonar hindranir standi í vegi menntaðra innflytjenda að vinnu hjá hinu opinbera. „Þar á meðal er ófullnægjandi íslenskukunnátta, sem vegur þungt, en samt sem áður má rekja margar hindranir til óhagstæðra laga og stefnu stjórnvalda, sem og framkvæmdar,“ segir í skýrslunni, sem kynnt var fyrir fjölmenningarráði á fundinum.
Tekið er fram að athuganir sýni að stefnumótun Íslands vegna aðlögunar innflytjenda skapi í raun fleiri hindranir en lausnir fyrir þátttöku innflytjenda í samfélaginu. „Niðurstöður benda jafnframt til þess að flókið sé fyrir innflytjendur að fá menntun sína metna, bæði vegna lagalegra og skipulagslegra hindrana, þar sem gegnsæi skortir og einnig þar sem fleiri en 10 lögaðilar sjá um mat menntunar og reynslu hérlendis.“
Fjölmenningarráð hvetur borgina til að skoða þær hugmyndir að aðgerðum sem nefndar eru í skýrslunni. Á meðal þeirra eru einföldun matsferlis á erlendri menntun og tímabundnar jákvæðar aðgerðir sem miða að samþættingu á vinnumarkaði fyrir innflytjendur almennt sem og konur af erlendum uppruna. Meðal þeirra gætu verið starfsnám, námskeið í stjórnsýslurétti og framkvæmd, brúarnámskeið sem miða að því að fá menntun og reynslu metna, sérsniðin íslenskunámskeið og fleira.
Athugasemdir