Snjóflóðin sem féllu á Flateyri síðastliðinn þriðjudag voru með allra stærstu snjóflóðum í heiminum sem fallið hafa á varnargarða. Eftir því sem kemur fram á vef Veðurstofu Íslands sýnir skoðun snjóathugunarmanna og sérfræðinga Veðurstofunanr að flóðin flæddu yfir varnargarðanna á stórum köflum og mikinn snjó er að finna milli leiðigarðanna tveggja sem leiða eiga flóðin frá byggðinni. Engin leið er að segja til um fjárhagslegt tjón vegna flóðanna að svo komnu máli en ljóst er að það er verulegt. Í meðfylgjandi myndbandi, sem Önundur Hafsteinn Pálsson tók með dróna, má sjá hvernig umhorfs var á Flateyri á miðvikudaginn, daginn eftir flóðin.
Snjóflóðið sem féll úr Innra-Bæjargili virðist hafa kastast yfir snjóflóðavarnargarðinn sem stendur utar fyrir ofan þorpið, með þeim afleiðingum að flóðtungan lenti á húsi við Ólafstún 14. Þar grófst fjórtán ára stúlka, Alma Sóley Ericsdóttir, undir flóðinu en fyrir alla mildi var henni bjargað af liðsmönnum björgunarsveitarinnar Sæbjargar eftir um 40 mínútur. Alma slasaðist ekki.
Flóðin virðast hafa komið á varnargarðana á miklum hraða og kastast yfir þá þannig að snjór sem er neðan undan þeim er óhreyfður en neðar lentu flóðin við jörðu og sópuðu með sér trjágróðri og skiltum, svo eitthvað sé nefnt. Flóðið sem féll úr Skollahvilft, sem stendur innar en Innra-Bæjargil, fór að hluta yfir varnargarðana en rann að mestu meðfram leiðigarði niður á jafnsléttu, þaðan út í sjó með þeim afleiðingum að flóðbylgja myndaðist, sem aftur hvolfdi sex bátum í höfninni á Flateyri með meðfylgjandi tjóni.
Athugasemdir