Ef niðurstaða rannsóknar á Samherjamálinu verður sú að fyrirtækið hafi í rauninni hagað sér nokkurn veginn eins og nú lítur út fyrir – eftir birtingu Samherjaskjalanna (eða Fiskýldufælanna eins og þau heita í útlöndum), eftir vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar, eftir athugun Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera og síðan fleiri fjölmiðla og rannsókn lögregluyfirvalda í Namibíu, Noregi og víðar (þótt henni sé ekki lokið) – þá er ljóst að um er að ræða mesta og versta hvítfibbaglæp sem komist hefur upp um á Íslandi. Ég þarf vonandi ekkert að orðlengja um það.
Saklaus uns sekt
Og þótt menn skuli ævinlega hafa í heiðri hið fornkveðna að hvur maður sé saklaus uns sekt hans er sönnuð, þá er alveg óhætt að segja að í augnablikinu virðist óneitanlega fleira benda til sektar Samherja en sakleysis. Altént er sú vörn sem fyrirtækið hefur boðið upp á í fjölmiðlum hingað til ansi fáfengileg. Það er til dæmis einfaldlega hlægilegt að bjóða upp á rugl eins og að Jóhannes hafi meira og minna staðið einn og sjálfur í mútugreiðslum til namibískra ráðamanna. Allir sem hafa minnstu nasasjón af stjórnarháttum Þorsteins Más Baldvinssonar hjá Samherja vita að millistjórnandi í Namibíu hefði aldrei í lífinu tekið upp á neinu þvíumlíku án frumkvæðis og blessunar æðstu manna fyrirtækisins. Enda ljóst að mútugreiðslur héldu áfram löngu eftir að Jóhannes lét af störfum.
Vörn Samherja
Fát- og fálmkenndar tilraunir Samherjamanna til að halda þessu á lofti löngu eftir að búið er að benda á holurnar í þessari „vörn“ eru væntanlega vísbending um að vart megi vænta öllu veigameiri málsvarnar. Nema þá farið verði út í frekari tilraunir til að hafa æruna af Jóhannesi uppljóstrara. Kannski má búast við því, miðað við að einhver sá sóma sinn í að setja símtalsupptökuna á netið um daginn. En þó vita auðvitað allir að sama hverju þar yrði ausið upp, það myndi engu breyta um meininguna í þeim gögnum sem Jóhannes kom á framfæri með Fiskiýldufælunum.
„Fyrst eftir að málið kom fram á sjónarsviðið, þá passaði maður sig voða vel á því að ganga ekki of langt í kröfum gegn lögreglu eða öðrum yfirvöldum.“
(„Fiskýlduskjölin“ er ekki nafn valið út í loftið. Nafnið kemur af því enska máltæki að fiskur byrji að úldna að framan, það er að segja frá toppnum, hvort heldur er svo átt við fyrirtæki, pólitík eða hvaðeina.)
„Af hverju, af hverju?“
En það sem ég vildi sagt hafa: Fyrst eftir að málið kom fram á sjónarsviðið, þá passaði maður sig voða vel á því að ganga ekki of langt í kröfum gegn lögreglu eða öðrum yfirvöldum. Þegar einhver hrópaði: „Af hverju er ekki búið að handtaka þessa menn? Af hverju er ekki búið að gera húsleit?“ þá hummaði maður bara kurteislega og sagði sísona: „Ja, búum við ekki í réttarríki, allir menn eru saklausir þar til ... og svo framvegis, verður ekki hin rómaða íslenska lögregla, og hinn rómaði héraðssaksóknari að fá að hafa sína hentisemi við rannsókn málsins?“ Og þegar fóru að renna á mann tvær grímur úr því nákvæmlega ekkert virtist í gangi, þá fór maður að japla á tuggum eins og að tölvurnar gleymdu engu, það gilti einu þótt glæpamenn settu skjöl í tætara, ummerki þeirra myndu finnast einhvers staðar rafræn.
Drepa málinu á dreif?
En nú er ég eiginlega búinn að fá nóg af þessu. Það er í alvöru talað orðið alveg stórskrýtið af hveru lögregla, saksóknari og skattyfirvöldin virðast ekki vera að gera nokkurn skapaðan hlut. Á ekkert að leggja til málanna nema lesa tölvugögn sem Wikileaks leggur upp í hendurnar á þeim? Er búið að kalla einhverja Samherjamenn til – þó ekki væri nema viðtals? Eða eiga allar verstu grunsemdir manns að rætast, um að það sé verið að drepa málinu á dreif? Skemma það vísvitandi?
Kona Caesars
Ég trúi því ekki í raun, ekki enn, en það væri voða gott ef íslensk yfirvöld gætu lyft litlaputta til að sýna manni fram á að vel sé staðið að málum.
Því eins og Caesar sagði þegar einhver efaðist um siðferði eiginkonu hans og hann skildi þá umsvifalaust við hana: „Það er ekki nóg að siðferði konu Caesars sé hafið yfir vafa. Það verður líka að vera sjáanlegt.“
Dugurinn í rannsókn íslenskra yfirvalda á Samherjamálinu er því miður alveg ósýnilegur núna.
Athugasemdir