Fyrsta vegabréfið mitt rann út þegar ég var tólf ára og ég hugsaði ekki um að ferðast fyrr en ég var orðin 30 ára og margir vinir mínir voru erlendis að ferðast. Þá fann ég fyrir innblæstri til að gera slíkt hið sama. Það er algengt fyrir Ameríkana að eiga ekki vegabréf því þú þarft ekki slíkt ef þú ferðast bara innanlands.
Ég bjó í Seattle á þessum tíma en Icelandair var þá með beint flug og auglýsti Ísland úti um allt. Það voru skilti þakin jöklum og strætisvagnar skreyttir norðurljósunum. Ég vann þá sem kennari og nýtti vorfríið í fimm daga ferð hingað og gerði allt það sem Ameríkanar gera venjulega. Ég fór Gullna hringinn, kíkti til Akureyrar í dagsferð og átti það sem ég tel vera einn af uppáhaldsdögum lífs míns á Suðurlandi: Ég komst í tæri við jökul, ég sá norðurljósin með eigin augum og mér tókst að keyra niður afskekktan veg og sá Eyjafjallagosið í fjarska. Þetta var stórmerkileg þrenning á einum frábærum degi.
Ég fór aftur heim til Seattle en var enn hugfangin af Íslandi. Árið eftir sagði ég upp starfi mínu, kom hingað í lengra frí í október, fór á Airwaves-tónlistarhátíðina og kynntist manninum sem er enn þann dag í dag kærasti minn.
Athugasemdir