Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vísaði til þess í tölvupósti sem hún sendi meðal annars Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra þann 25. janúar síðastliðinn að lögreglumenn úr fíkniefnadeild hefðu skráð nafn sitt á lista til að lýsa vantrausti í garð samstarfsmanns síns, mannsins sem kallaður hefur verið lögreglufulltrúi x í umfjöllun Stundarinnar og var ranglega sakaður um óeðlileg samskipti við aðila úr fíkniefnaheiminum.
Nýlega sendi Kristján B. Thorlacius, lögmaður lögreglufulltrúans, Sigríði Björk tölvupóst og fór fram á að umræddur listi yrði afhentur skjólstæðingi sínum. Benti lögmaðurinn á að ítrekað hefði verið vísað til listans við meðferð málsins og að fullyrt hefði verið að þar væri að finna nöfn og undirskriftir lögreglumanna sem kvartað hefðu til lögreglustjóra vegna lögreglufulltrúa x. Sigríður Björk svaraði beiðninni 11. júlí síðastliðinn og sagði að í máli lögreglufulltrúans væri ekki að finna neinn slíkan lista.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur Sigríður Björk ítrekað vísað til „listans“ í umræðum um málefni fíkniefnadeildar. „Hún var alltaf að veifa þessu, að níu starfsmenn – meirihluti fíkniefnadeildar – hefðu skilað til sín undirritaðri vantraustsyfirlýsingu,“ segir einn af heimildarmönnum blaðsins. Þremur öðrum viðmælendum blaðamanns innan úr lögreglu ber einnig saman um þetta. Þá eru dæmi um að lögreglumenn hafi sjálfir frétt af því að nöfn þeirra væru á „listanum“ hennar Sigríðar Bjarkar en komið af fjöllum.
Athugasemdir