Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur lagt fram frumvarp um að fest verði í lög að horft sé til markmiða Íslands í loftslagsmálum þegar veittar eru ívilnanir til nýfjárfestinga. Lagt er til að því skilyrði sé bætt inn í 5. gr. laga um ívilnanir til nýfjárfestinga að fjárfestingarverkefni þurfi að samræmast skuldbindingum Íslands og markmiðum íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda svo að til álita geti komið að veita ívilnanir.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var þann 10. janúar er því lýst yfir að „ekki verði komið á ívilnandi fjárfestingarsamningum vegna nýrrar mengandi stóriðju“. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur vísað því á bug að lagabreytinga sé þörf til að framfylgja þessari stefnu, en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hins vegar staðfest í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið að ráðherra iðnaðarmála muni ekki fara gegn vilja nefndar um veitingu ívilnana og hafna ívilnanabeiðnum vegna verkefna sem uppfylla skilyrði laga um ívilnanir til nýfjárfestinga nema sérstakar lagaforsendur standi til þess.
Frumvarp Katrínar er til þess fallið að tryggja að lagastoð sé fyrir því að ráðherra hafni beiðni um ívilnanir á grundvelli umhverfisverndar- og loftslagssjónarmiða. Lagt er til að í 5. gr. laga um ívilnanir til nýfjárfestinga, þar sem skilyrði til ívilnanasamninga eru talin upp, bætist eftirfarandi atriði: „að sýnt sé fram á að fjárfestingarverkefnið samræmist skuldbindingum Íslands og markmiðum íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda“.
Í greinargerð frumvarpsins er bent á að íslensk stjórnvöld hafi lýst því yfir að hér á landi skuli stefnt að því að árið 2030 verði losun gróðurhúsalofttegunda 40% minni en árið 1990. Þetta er sama markmið hið sama og Evrópusambandslönd og Noregur hafa sett sér. „Mikilvægt er að umrætt markmið náist og ættu því fjárfestingarverkefni sem njóta ívilnana af hálfu íslenska ríkisins að vera þess eðlis að þau stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða séu hlutlaus gagnvart þeim,“ segir í greinargerðinni.
Athugasemdir