Hallgrímur Helgason rithöfundur segir frá því í nýrri skáldævisögu, Sjóveikur í München, að honum hafi verið nauðgað af ókunnugum karlmanni á námsárunum í Þýskalandi.
Hallgrímur talar meðal annars um þennan kafla í bókinni í viðtali við Fréttatímann í dag: „Um suma kafla fékk ég þau komment frá yfirlesurum að þeir væru ekki nógu sannfærandi, þá hafði ég ekki þorað að fara alla leið inn í gamlan sársauka. Það var einkum í kafla sem lýsir nauðgun, en það er nú eitt af því sem gerist á lífsleiðinni að manni er nauðgað af ókunnugum manni í erlendri borg. Þetta kom fyrir mig þennan vetur og á endanum varð ég að lýsa því bara í bókinni eins og það gerðist. En ég hafði læst þetta svo djúpt í lífsins skáp að skúffan var nánast ryðguð föst. Sumt í bókinni þurfti ég að ýkja, en þarna þurfti ég að ýkja sjálfan mig til að geta skrifað frekar óýktan kafla. Þetta var orðið eins og sveskjusteinn á sálinni sem var orðinn svo glerharður að ég þurfti virkilega að taka öllu mínu til að ná að leysa hann upp svo hann gæti gengið niður af mér.“
„Það er nú eitt af því sem gerist á lífsleiðinni að manni er nauðgað af ókunnugum manni í erlendri borg.“
Bókin fjallar um erfiðan tíma í lífi Hallgríms. Hann fann sig ekki í náminu, fílaði ekki borgina og passaði ekki inn í þær kreðsur sem voru í München. Hallgrímur segir frá því í viðtalinu við Fréttatímann að þrátt fyrir að bókin sé flokkuð sem skáldævisaga sé flest sem í henni stendur sannleikanum samkvæmt. „Þetta er skáldævisaga, já, þótt megnið af þessu sé alls ekki skáldað. Hlutir eru færðir til og sumir ýktir smávegis, en það eina sem er hreinn skáldskapur eru uppköstin, já, og líka ein settleg sena bakvið gardínu...“
Erfitt fyrir karlmenn að leita sér hjálpar
„Það er mikilvægt að sýna þakklæti og virðingu þegar fólk tekur þetta erfiða skref,“ segir Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi á Stígamótum, um frásögn Hallgríms af því þegar honum var nauðgað af ókunnugum manni þegar hann var 22 ára gamall. „Maður er hræddur um að alltof margir menn hafi fallið frá án þess að hafa nokkurn tímann tekist á við ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir, sem fullorðnir eða börn. Þetta er lífsalvara.“
Hjálmar var ráðinn sem ráðgjafi á Stígamótum í fyrrasumar þegar mikil aukning varð á því að karlar leituðu sér aðstoðar vegna kynferðisofbeldis í kjölfar þess að níðingsverk Karls Vignis Þorsteinssonar voru opinberuð og fórnarlömb hans stigu fram. „Þá var ákveðið að vinna markvisst í því að koma þeim skilaboðum út í samfélagið að karlkyns þolendur kynferðisofbeldis ættu rétt á því að leita sér hjálpar og að þeir væru velkomnir á Stígamót. Auðvitað tekur alltaf tíma að koma þessum skilaboðum áleiðis en það er mikilvægt að þeir viti að það er til staður þar sem brotaþolar geti fundið fyrir stuðningi, unnið úr afleiðingunum og fundið sinn styrk.“
Hann segir erfitt að gera sér grein fyrir umfangi vandans. „Við vitum ekki hverjar skuggatölurnar eru og þetta á almennt við um kynferðisofbeldi. Við getum bara talað um hversu margir leita til Stígamóta og okkar tilfinning er sú að þegar umræðan eykst þá koma fleiri til okkar. Þannig að það eru alltof margir karlmenn sem hafa ekki leitað sér hjálpar. Sumir hafa bent á að þessi fyrstu skref sem eru almennt mjög erfið fyrir brotaþola séu jafnvel erfiðari fyrir karlmenn. Margir karlmenn sem hafa komið til Stígamóta hafa oft á tíðum alls ekki rætt þessa hluti eða mjög takmarkað. Það segir heilmikið ímynd karla og hvað karlar mega og hvað ekki. Þeir þurfa bæði að takast á við hugmyndir um karlmennskuna og það sem þeir hafa orðið fyrir.“
Öll umræða til góðs
Hjálmar segir að umræðan um kynferðisofbeldi gegn körlum sé skammt á veg komin. „Þetta ofbeldi er rétt að komast upp á yfirborðið. Karlar þurfa að finna leiðir til að skapa sér rými þar sem þeir finna fyrir trausti og virðingu. Afleiðingarnar eru í raun þær sömu. Skömm og sektarkennd eru mjög áberandi. En við sjáum einnig ákveðinn kynjamun. Karlar upplifa meiri reiði og tala meira um reiði en konur, sem er áhugavert út frá karlmennskuhugmyndum. Þeir eru einnig líklegri til að sýna af sér skaðlega hegðun, svo sem neyslu á áfengi eða eiturlyfjum eða klámi, tölvuleikjum og öðru sem hefur neikvæð áhrif á lífsgæði þeirra.“
„Karlar upplifa meiri reiði og tala meira um reiði en konur.“
Hjálmar segir bæði skömmina og margar ranghugmyndir sem flæki málið fyrir körlum, til dæmis þeirri hugmynd að karlmenn sem verði fyrir ofbeldi verði líka gerendur. „Sú ranghugmynd hefur mjög erfið og mikil áhrif á marga þolendur,“ segir Hjálmar. „Margir karlmenn óttast að þeir verði þá líka gerendur. Önnur ranghugmynd sem hefur áhrif á marga karla er sú að þeir óttist að fyrst karl nauðgaði þeim þá verði þeir samkynhneigðir.“
Hann áréttar mikilvægi þess að sýna fólki alltaf virðingu fyrir að taka þetta erfiða skref og leita sér hjálpar, segir Hjálmar. „Það er ekki hægt að líta á það sem sjálfsagðan hlut að fólk geri það. Það má ekki vera yfirþyrmandi pressa á brotaþola að fara í fjölmiðla, en við höfum séð að öll umræða er til góðs. Þegar einstaklingar stíga fram hjálpar það brotaþolum sem hafa ekki stigið þetta skerf að takast á við þetta eða leyft sér að vinna úr þessum málum og ná þeim bata sem þeir eiga skilið. Þannig að auðvitað er það mjög jákvætt að einstaklingar stíga fram, sérstaklega einstaklingar sem fá mikla athygli. Umræðan er alltaf jákvæð og tekur okkur alltaf lengra. Sérstaklega þegar hún er uppbyggileg fyrir brotaþola.“
Athugasemdir