Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, vill að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði hækkaður upp í efra þrep, eða í 24 prósent. Árið 2013 greiddi hún hins vegar atkvæði með því að fallið yrði frá hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu upp í miðþrep, 14 prósent. Rökin á bak við lagabreytinguna voru þau að hækkun myndi hafa slæm áhrif á eftirspurn í atvinnugreininni, flækja kerfið og skaða ferðaþjónustufyrirtæki.
Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu er nú 11 prósent, eftir að núverandi ríkisstjórn hækkaði lægsta þrep skattsins úr 7 prósentum, þar með talin matvæli.
Í viðtali við Vigdísi Hauksdóttur í Fréttablaðinu um helgina segist hún vera talsmaður þess að hugað verði að því að afnema ívilnanir í ferðaþjónustu, enda þurfi nú að „hugsa málin upp á nýtt“ í ljósi þess að ferðaþjónustan sé orðin „svipað stór í veltu og sjávarútvegurinn“.
Athugasemdir