„Er það lýðræði ef allir kjósa með því að taka einn ugla sat á kvisti yfir kjörseðlinum? Er það lýðræði ef að sá vinnur sem getur gefið nógu mörgum far á kjörstað? Er lýðræði keppni í hver getur hellt flesta táninga fulla?“ spyr Gísli Gautason sagnfræðinemi í harðorðum pistil sem birtur var á Nútímanum fyrr í dag, þar sem hann segir frá kosningum Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem fóru fram í gær.
Gísli segir að kunningi sinn úr menntaskóla hafi haft samband við sig og spurt hvort hann væri ekki reiðubúinn að hjálpa sér, kjósa sig og sitt framboð í kosningum Heimdallar. Gísli gekkst við því og var skráður í Sjálfstæðisflokkinn án þess að sýna skilríki eða skrifa undir nokkurn pappír. Hann telur kosningarnar einkennast af vinsældakosningum og spillingu.
„Þetta er gjörsamlega meingallað form á kosningum og mjög óheilbrigt fyrir bæði félagið og flokkinn.“
Formaður tekur undir
Nýkjörinn formaður Albert Guðmundsson tekur undir gagnrýni Gísla og segir hann núverandi kosningafyrirkomulega meingallað. Hann segir að framboðin tvö hafi komið sér saman um annað fyrirkomulag en Valhöll hafi ekki tekið það í mál.
„Þetta er gjörsamlega meingallað form á kosningum og mjög óheilbrigt fyrir bæði félagið og flokkinn. Við vildum að þessu yrði þannig háttað að fólk kæmi á staðinn og skráði sig þar í flokkinn þannig að það yrði meðvitaðra um að það væri að skrá sig í flokkinn. En svo kom það í ljós á mánudeginum að þau skiptu um skoðun upp í Valhöll og vildu hafa það þannig að fólk yrði skráð í flokkinn áður en það kæmi á kjörstað,“ segir Albert og bætir við að framboðin hafi samið um þetta áður.
Athugasemdir