Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, gagnrýnir þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir að „leggja ofuráherslu á hvort“ Bjarni Benediktsson fyrrverandi fjármálaráðherra hafi setið á skýrslunni um skiptingu höfuðstólslækkunar húsnæðislána fram yfir kosningar.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hún birti á Facebook í dag. Eins og greint var frá fyrr í mánuðinum voru lokadrög að skýrslu um skiptingu leiðréttingarinnar milli þjóðfélagshópa tilbúin í júní 2016 og vinnslu við hana lokið fyrir kosningar í október 2016. Hún var hins vegar ekki birt fyrr en 18. janúar síðastliðinn að frumkvæði Benedikts Jóhannessonar, nýs fjármála- og efnahagsráðherra. Skýrslan varpar ljósi á það hvernig stór hluti af þeim fjármunum sem varið var til höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána á síðasta kjörtímabili rann til stóreignafólks.
Theodóra telur að sömu aðilar og gagnrýna Bjarna Benediktsson fyrir að hafa setið á skýrslunni fram yfir kosningar – en slík gagnrýni hefur einkum heyrst frá þingmönnum Vinstri grænna, Pírata og Samfylkingarinnar – séu þannig að „komast hjá því“ að ræða um innihald skýrslunnar. Hún kallar eftir uppgjöri við þá stefnu sem rekin var í stjórnartíð Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að því er varðar skuldamál heimila og fyrirtækja.
„Sorglegt að horfa upp á þá sem kusu með leiðréttingunni eða sátu hjá komast hjá því að ræða innihald skýrslunnar og leggja ofuráherslu á hvort ráðherra hafi setið á henni yfir kosningar,“ skrifar Theodóra. Nær allir þingmenn Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata greiddu atkvæði gegn frumvarpi um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána árið 2014 en Framsóknarflokkinn, sem nú er í stjórnarandstöðu, stóð að málinu ásamt Sjálfstæðisflokknum.
Theodóra vitnar í bréf Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, til flokkssystkina þar sem hann sagði Samfylkinguna hafa tekið að sér „í of ríkum mæli að útskýra fyrir fólki að það ætti að borga skuldir sínar“ í stað þess að taka sér „stöðu með fólki gegn fjármálakerfi“.
Theodóra fullyrðir að Samfylkingin hafi enn tækifæri til „að leiðrétta þessi mistök“. Hún skrifar: „Fólk er enn að drukkna í skuldarfeni [sic] og það er óuppgert tjón hundruða heimila vegna nákvæmlega þessara mistaka sem Samfylkingin gerði. Væri fallegt að sjá Vinstri græna fara í sambærilega innri skoðun og jafnvel fleiri flokka. Þar fyrir utan þurfum við uppgjör á þeim úrræðum sem flokkarnir buðu upp á eftir bankahrunið. Ein skýrsla um "Leiðréttinguna" dugar ekki. Sorglegt að horfa upp á þá sem kusu með leiðréttingunni eða sátu hjá komast hjá því að ræða innihald skýrslunar [sic] og leggja ofuráherslu á hvort ráðherra hafi setið á henni yfir kosningar. Skýrsla um þau fyrirtæki sem rekin voru í gjaldþrot með ólögmætum hætti væri gagnleg, heildarskýrsla um öll þau úrræði sem í boði voru er nauðsynleg.“
Athugasemdir