Kaupfélag Skagfirðinga keypti 50 prósenta hlut í félagi utan um virkjunarkostinn Villinganesvirkjun í Héraðsvötnum í Skagafirði af Rarik á kostnaðarverði í árslok 2012 eftir að hafa hafa gengið inn í samninga á milli Rarik og Landsvirkjunar.
Kaupfélagið og Rarik áttu saman félagið Héraðsvötn ehf. sem hélt utan um virkjunarkostina. Rarik og Landsvirkjun eru opinberir aðilar og segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, að fyrirtækið hafi ætlað að selja Landsvirkjun hlut sinn í virkjunarkostinum á kostnaðarverði vegna þess að fyrirtækin eru bæði í eigu ríkisins. Hann segir hlutinn í Héraðsvötnum hafa verið seldan af því verkefnið hentaði Rarik ekki lengur.
Villinganesvirkjun og einnig Skatastaðavirkjun í Skagafirði hafa verið í umræðunni síðustu daga vegna fyrirhugaðrar byggingar álvers á Hafursstöðum í Skagabyggð. Fyrirtækið Klappir Development skipuleggur framkvæmdirnar en ekki liggur fyrir hvaðan 206 megavöttin sem þarf til að reka álverið fyrst um sinn eiga að koma. Í viðtali við Stundina í gær sagði Ingvar Skúli Unnsteinsson, forsvarsmaður Klappa, að fyrirtækið horfði fyrst og fremst til orku Blönduvirkjunar. Sú orka er hins vegar fullnýtt og kallar bygging álversins á byggingu nýrra virkjana.
„Ég taldi mig vita að þetta væri með samþykki norðanmanna“
Hélt að Rarik hefði samþykki kaupfélagsins
Þegar samningar og verð á hlutnum í Héraðsvötnum lágu fyrir, og Samkeppniseftirlitið var búið að samþykkja viðskiptin, virkjaði Kaupfélag Skagfirðinga hins vegar forkaupsréttarákvæði sem er í samþykktum Héraðsvatna ehf. og fékk hlut Rarik í virkjunarkostinum því á sama verði og Landsvirkjun ætlaði að kaupa hlutinn á, segir Tryggi Þór. „Þessar viðræður á milli okkar og Landsvirkjunar stóðu yfir í kannski eitt og hálft ár. Ég taldi mig vita að þetta væri með samþykki norðanmanna. Þegar við vorum búin að ná saman við Landsvirkjun um að þeir keyptu bara okkar hlut í Héraðsvötnum, og að þeir ynnu bara með norðanmönnum í þessu verkefni, þá virkjuðu þeir forkaupsrétt sem var í hluthafasamkomulagi. Ég hélt að þetta væri bara tímabundið á meðan þeir héldu einhverjum samningaviðræðum áfram við Landsvirkjun um hvernig þeir kæmu inn í Héraðsvötn. En mér skilst að það hafi ekki orðið ennþá.“
Athugasemdir