Stefnt er að því að selja stærstan hluta ríkisins í Landsbankanum og allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, Arion banka og Sparisjóði Austurlands á næstu árum. Þetta kemur fram í drögum að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki sem birt voru til umsagnar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag. Þar eru meðal annars skilgreind markmið um einstök fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins og eignarhald þeirra til framtíðar.
Fram kemur að stefnt sé að því að ríkissjóður eigi verulegan eignarhlut, 34-40%, í Landsbankanum til langframa í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess. „Eignarhlutur ríkisins í bankanum verði að öðru leyti seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkað,“ segir í tilkynningunni. Eins er kveðið á um „hagfelld og æskileg skilyrði“ í umfjöllun um fyrirhugaða sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Arion banka. Hins vegar kemur fram að hlutur ríkisins í Sparisjóði Austurlands verði seldur „um leið og hægt er“ enda sé ekki markmið ríkisins að vera eigandi sparisjóðsins til langframa.
Í drögunum er tekið fram að eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði ekki seldir fyrr en aðstæður á markaði séu hagfelldar og ásættanlegar, líklegt sé að kaupendur séu til staðar og viðkomandi fyrirtæki tilbúið til sölu. Við söluna skuli stuðlað að því að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði.
Bent er á að í lögum um Bankasýslu ríkisins hafiverið gert ráð fyrir að stofnunin lyki störfum innan fimm ára frá því að hún var sett á fót. Bankasýslan hafi hins vegar ekki lokið hlutverki sínu. Líklega verði lagt fram lagafrumvarp um niðurlagningu hennar verði stærri fjármálafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins seld eða skráð á hlutabréfamarkað.
Athugasemdir