Forsætisráðherra Íslands er með hærri laun en forsætisráðherrar flestra ríkja Evrópu og mun hærri laun en leiðtogar stærstu og fjölmennustu ríkja heims.
Þótt jafnan sé því haldið fram að jöfnuður sé einna mestur á Íslandi af ríkjum heims endurspeglast það ekki jafn vel í muninum á kjörum íslenska forsætisráðherrans og meðalmanneskjunnar.
Hærri laun en leiðtogar stórþjóða
Íslenski forsætisráðherrann er með 8% hærri laun en forsætisráðherra Japans, þar sem 126 milljónir manna búa. Hérlendi forsætisráðherrann hefur hlutverki að gegna gagnvart 0,27% af þeim mannfjölda sem japanski forsætisráðherrann Shinzo Abe starfar fyrir. Hlutfallslegur kostnaður Íslendinga af forsætisráðherra sínum er því um 374 sinnum meiri en Japana.
Leiðtogar ríkisstjórna í Frakklandi og Bretlandi fá einnig töluvert lægri laun en forsætisráðherrar Íslands, þótt á Íslandi búi einungis um 0,5% af íbúafjölda ríkjanna tveggja. Forsætisráðherra Belgíu, þar sem rúmar 11 milljónir manna búa, fær aðeins tæpar 1,4 milljónir króna í laun, eða rúmlega 600 þúsund krónur minna en sá íslenski.
Athugasemdir