Stjórnarliðar í fjárlaganefnd telja að ný og bætt aðstaða á Landspítala geti greitt götu fjölbreyttra rekstrarforma í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Þannig megi bæta þjónustu og auka afkastagetu kerfisins.
Þetta kemur fram í áliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Undir það rita Haraldur Benediktsson, formaður nefndarinnar, Njáll Trausti Friðbertsson og Páll Magnússon úr Sjálfstæðisflokknum, Hanna Katrín Friðriksson úr Viðreisn og Theodóra S. Þorsteinsdóttir úr Bjartri framtíð.
Í álitinu er vikið að innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar spítalans og bent á að þetta feli í sér „gegnsærri aðferðir við fjármögnun þar sem þjónustan er kostnaðargreind, skynsamlegri úthlutun fjármagns í heilbrigðiskerfinu, aukin skilvirkni og bætt eftirlit með gæðum og hagkvæmni þjónustunnar.“
Þá segir í álitinu að auk fyrrgreindra markmiða muni „ný og bætt aðstaða á Landspítala og gegnsæ framleiðslutengd fjármögnun að mati meiri hluta nefndarinnar hafa áhrif á að hægt verði að nýta kosti fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu til að ná markmiðum um bætta þjónustu og aukna afkastagetu. Forsenda þess að slík fjölbreytni skili ávinningi fyrir notendur og veitendur heilbrigðisþjónustunnar er að greiðslukerfin séu sambærileg.“
Andstaðan við einkarekna heilbrigðisþjónustu eykst
Í dag birti Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands niðurstöður rannsóknar Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, þar sem fram kemur að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er andvígur einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.
Andstaðan við einkarekstur hefur aukist verulega á undanförnum árum og eru nú alls 86% landsmanna þeirrar skoðunar að rekstur sjúkrahúsa eigi fyrst og fremst að vera á hendi hins opinbera. Aðeins 1,3% telja að sjúkrahús eigi fyrst og fremst að vera rekin af einkaaðilum.
Hafa stjórnendur Landspítalans lýst því yfir að sú forgangsröðun sem birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar bendi til þess að ríkisstjórnin vilji kynda undir þeirri þróun að heilbrigðisþjónusta færist frá sjúkrahúsum og til veitenda utan sjúkrahúsa, svo sem til einkastofa sérfræðilækna og einkarekinna lækningafyrirtækja. Landlæknir hefur að sama skapi kallað eftir endurskoðun á samningi Sjúkratrygginga við sérfræðilækna og bent á að útgjöld ríkisins til einkareksturs hafa aukist um 40 prósent á síðastliðnum árum en umtalsvert minna til opinbera kerfisins.
Athugasemdir