Reykvíkingar geta búist við því að sólríkasti mánuður ársins sé nú hafinn. Þótt mánuðurinn hefjist í höfuðborginni með skýjahulu og rigningu er langvarandi sólríkja framundan, samkvæmt spám Veðurstofunnar.
Maímánuður er langsamlega sólríkasti mánuður ársins í Reykjavík. Á árunum 2000 til 2014 voru að meðaltali 230 sólarstundir í maí, en næstmest eru 198 sólarstundir í júní og þar á eftir 185 í júlí.
Sólríkara í Reykjavík en á Akureyri
Þar sem sólarstundir eru að meðaltali rúmlega 1.400 á ári í Reykjavík má búast við að 16,5 prósent þeirra eigi sér stað þennan mánuðinn. Fæstar eru sólarstundir í Reykjavík í desember, eða aðeins 12 til 15.
Í maí í fyrra voru óvenjufáar sólskinsstundir í Reykjavík, eða 146 stundir, sem er 93 stundum undir meðaltali síðustu tíu ára á undan. Hins vegar voru sólskinsstundirnar 213 á Akureyri í maí í fyrra, eða 53 yfir tíu ára meðaltali.
Á Akureyri eru um 1050 sólskinsstundir á hverju ári. Örlítið fleiri sólarstundir eru viðbúnar þar í júní en í maí.
Tölfræði sýnir að ekkert samband er á milli fjölda sólskinsstunda á Akureyri og í Reykjavík, eins og Trausti Jónsson veðurfræðingur bendir á í Veðurbók sinni. „Í fljótu bragði mætti ætla að öfugt samband sé á milli sólskinsstundafjölda á Akureyri og í Reykjavík. Svo er þó ekki, því sambandið er ekkert. Til eru sumur sem voru sólarlítil á báðum stöðum og einnig öfugt, að sólskin ríkti bæði norðanlands og sunnan.“
Sumarveður framundan
Eftir fremur kaldan aprílmánuð eru sumarhlýindi framundan á öllu landinu. Strax á miðvikudag er spáð 19 gráðu hitta á Akureyri og Egilsstöðum, og 14 gráðu hita og heiðríkju í Reykjavík. Sjálfvirkar spár gera ráð fyrir sólríkju í Reykjavík frá miðvikudeginum næsta og allt að 18 gráðu hita á Suðurlandi næstu helgi.
Athugasemdir