Sjúklingur sem gengst undir aðgerð vegna æðahnúta þarf að greiða tæplega 78 þúsund krónur úr eigin vasa. Æðahnútaaðgerðir eru ekki lengur gerðar á sjúkrahúsum heldur á einkastofum og greiða Sjúkratryggingar Íslands aðeins hluta kostnaðarins.
Frá þessu greindi fréttastofa RÚV á dögunum, en dæmi eru um að sjúklingar fresti því að gangast undir æðahnútaaðgerðir vegna kostnaðarins.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur, sem stundað hefur rannsóknir á íslenska heilbrigðiskerfinu, hefur áhyggjur af þróuninni og veltir því fyrir sér hvort tvískipt heilbrigðiskerfi sé í mótun.
„Ríkið sveltir opinbera þjónustu og
semur við einkavædda þjónustu“
„Ríkið sveltir opinbera þjónustu og semur við einkavædda þjónustu, en þó þannig að aðeins efnameiri geta keypt þann hluta þjónustunnar sem framkvæmd er með nýjustu tækni og lágmarks óþægindum, þar sem ekki er samið um þann hluta aðgerðarinnar,“ skrifar Sigurbjörg á Facebook vegna frétta af æðahnútaaðgerðunum og þeim kostnaði sem fellur á sjúklinga.
„Þeir sem eru betur settir í samfélaginu njóta framfaranna, ekki almenningur. Ójöfnuðurinn innan þjónustunnar eykst og sú aukning heldur áfram að gerast meðan við horfum aðgerðarlaus á. Þetta er tvískipt heilbrigðiskerfi í mótun.“
Stefnt að auknum einkarekstri
Eins og Stundin fjallaði nýlega um bendir margt til þess að hlutur einkarekstrar í íslenska heilbrigðiskerfinu muni fara vaxandi á næstu árum. Stundin hefur heimildir fyrir því að heilbrigðisyfirvöld séu að kanna hvort hugur lækna sem starfa á heilsugæslustöðvum liggi til þess að taka við rekstri þeirra af íslenska ríkinu. Heilsugæslustöðvarnar myndu þá áfram vera fjármagnaðar af íslenska ríkinu en reknar af starfsmönnum þeirra.
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands sem send var út 8. janúar síðastliðinn stendur til að fram fari „heildstæð skoðun á skipulagi, uppbyggingu og fjármögnun heilbrigðiskerfisins“ þar sem opnað verður fyrir „möguleika á
fjölbreyttum rekstrarformum“.
„Miðað er við að opnað sé fyrir möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum sem byggi á virkri þjónustu- og verkefnastýringu, skýrum gæðakröfum samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra nýlega í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málefni heilbrigðiskerfisins.
Athugasemdir