Umræðu um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar lauk í kvöld en Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lýst stefnunni sem „langstærsta málinu“ sem ríkisstjórnin leggur fram á yfirstandandi þingi.
Benedikt er hins vegar eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem hefur séð ástæðu til að tjá sig um fjármálastefnuna á Alþingi.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa bent á að fjármálastefnan varði málefnasvið allra ráðuneyta. Því sé eðlilegt að ráðherrar taki þátt í umræðum um hana eða séu að minnsta kosti viðstaddir meðan umræðan fer fram.
Í hinni lögbundnu fjármálastefnu er fjármálum hins opinbera markaður rammi til næstu fimm ára. „Ég hef talað um að líklega sé fjármálastefnan langstærsta málið sem ríkisstjórnin leggur fram núna í vor, en hún vekur litla athygli því að hún er frekar ,,leiðinlegt“ mál. Hún er ramminn utan um ríkisútgjöld og í henni boðaði ég mikla niðurgreiðslu skulda og aukinn afgang á fjárlögum næstu árin,“ sagði Benedikt Jóhannesson í Facebook-færslu þegar hann kynnti fjármálastefnuna í febrúar.
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt fjármálastefnu Benedikts harðlega og hvatt til þess að brugðist sé við athugasemdum fjármálaráðs áður en stefnan er samþykkt.
Auk Benedikts hafa aðeins sjö þingmenn stjórnarmeirihlutans blandað sér í umræðuna um fjármálastefnuna. Þetta eru þau Pawel Bartoszek, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Hanna Katrín Friðriksson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir og Hildur Sverrisdóttir.
Jafnframt lagði Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, orð í belg þegar rætt var um fundarstjórn forseta til að benda þingmönnum á að eflaust væru sumir stjórnarliðar að horfa á umræðurnar í sjónvarpinu.
Athugasemdir