Fólkið sem stendur að baki framboða Guðna Th. Jóhannssonar á það sammerkt að tilheyra Sjálfstæðisflokknum og vera virkir þátttakendur í störfum hans. Guðni er sá forsetaframbjóðandi sem hefur hvað mesta áherslu lagt á að forsetinn sé óháður, standi utan við flokka og fylkingar og þjóni öllum jafnt. Eins og segir í kynningu á meginstefnu hans á vefsíðu sem hann heldur úti: „Fólkið í landinu á að finna að hann sé ekki í liði með einum á móti öðrum.“ Það er því athyglisvert að þeir sem stýra framboði hans eru allir tengdir Sjálfstæðisflokknum, fyrir utan eiginkonu hans sem virðist ekki hafa neinar tengingar við íslenska stjórnmálaflokka.
Á heimasíðu Guðna eru að finna upplýsingar um framboðið. Þar kemur fram að félag um forsetaframboðið beri fjárhags- og skipulega ábyrgð á framboði Guðna. Stjórn félagsins er skipuð Þorgerði Önnu Arnardóttur, Lúðvík Erni Steinarssyni og Elizu Reid, eiginkonu Guðna.
Þorgerður Anna, formaður félagsins, er í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Framkvæmdastjórn flokksins er í höndum miðstjórnar sem ber til að mynda ábyrgð á öllu innra starfi flokksins og hefur eftirlits- og úrskurðarvald um allar framkvæmdir á vegum hans.
Lúðvík Örn er formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Lúðvík er lögmaður sem hefur um árabil verið viðloðandi Sjálfstæðisflokkinn og starfað í þágu hans.
Sjálfstæðismenn í framkvæmdanefnd
Auk þess að stýra stjórn félag um framboðið situr Þorgerður Anna í þriggja manna framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjórnin stýrir kosningabaráttu Guðna. Þorgerður, sem er kennari að mennt og hefur að baki reynslu sem skólastjórnandi bæði í barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum og leikskólum, er umboðsmaður framboðsins. Hún sér um fjármál og bókhald, kosningamiðstöðina, samskipti við kjörstjórn og önnur verkefni sem falla að umboðsmanni.
Ásamt Þorgerði Önnu sitja þeir Magnús Lyngdal Magnússon og Friðjón R. Friðjónsson í framkvæmdastjórninni. Magnús sat síðasta landsfund Sjálfstæðisflokksins þar sem hann var kosinn í allsherjar- og menntamálanefnd. Formenn málefnanefndanna mynda stjórn flokksráðs ásamt varaformanni og framkvæmdastjóra flokksins. Landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru valdir á fulltrúaráðs- eða félagsfundum, en kosningarrétt og kjörgengi hafa aðeins fullgildir félagsmenn.
Í byrjun júní greindi Kjarninn síðan frá því að allar líkur séu á því að Magnús, sem er sagnfræðingur og aðstoðarmaður rektors, bjóði sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn, annað hvort í komandi kosningum eða næstu sveitarstjórnarkosningum. Nú sér hann um framkvæmd kosningabaráttu Guðna.
Athugasemdir