Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, útilokar ekki að hann muni setjast í ríkisstjórn fyrir kosningar. Þetta kemur fram í viðtali við hann á forsíðu Morgunblaðsins í dag. „Ég met það hverju sinni hvað er best til að ná framgangi mála og mun gera það á hverjum degi. Það er mikilvægast,“ segir Sigmundur.
Í gærkvöldi sagði hann að lykilatriði í yfirlýsingum um að kosningar yrðu haldnar í haust væri orðalagið „stefnt sé að“. Í viðtali við RÚV útskýrði hann hvers vegna ríkisstjórnin hefði ekki raunverulega lofað að flýta kosningum til haustsins.
Sigmundur Davíð kennir stjórnarandstöðunni um og segir nú að „kannski“ sé hægt að „stefna að því að það verði kosið fyrir áramót“. Hann segir „fráleitt“ að ákveða kjördag.
Sigmundur vill ekki að kosningar séu haldnar fyrr en framsóknarmenn hafi náð að afnema verðtrygginguna og koma á heilbrigðu fjármálakerfi.
Yfirlýsingar um kosningar í haust bárust samhliða afsögn Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra eftir að hann var staðinn að ósönnum yfirlýsingum og gekk út úr sjónvarpsviðtali. Í kjölfar þess mótmæltu tugþúsundir ríkisstjórninni og Sigmundi á Austurvelli, sem leiddi til afsagnar hans og yfirlýsinga um kosningar í haust.
„Virkja lýðræðið í landinu“
Eftir afsögn Sigmundar sagði Bjarni Benediktsson að komið yrði til móts við kröfur um að virkja lýðræðið í landinu.
„En við ætlum að stíga viðbótarskref til þess að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu og til að koma til móts við þá stöðu sem hefur myndast þá hyggjumst við stefna að því að halda kosningar í haust og stytta þar með kjörtímabilið um eitt löggjafarþing.“
Þá sagði Sigurður Ingi Jóhannsson að einhugur hafi verið um að flýta kosningum í þingflokki Framsóknar. Þingflokkurinn fundaði reyndar án Sigmundar Davíðs sama dag og Sigmundur sótti sér umboð til forseta Íslands um að rjúfa þing, án þess að hafa ráðfært sig við þingflokkinn.
Lykilorðið „stefnt að“
Sigmundur útskýrði í samtali við RÚV í gærkvöldi hvernig ekki hefði raunverulega verið lofað kosningum í haust. „Þetta er einmitt lykilorð sem kemur bæði fram í máli fjármálaráðherrans og forsætisráðherrans núverandi að „stefnt sé að“, og það var alltaf sett í samhengi við að mönnum tækist að klára ákveðin mál. Með þessu var að sjálfsögðu verið að gera tilraun til að ná sem flestum saman um að klára þau mál í sameiningu.“
Nú segir Sigmundur að það hafi hugsanlega verið bjartsýni. „Þegar talað var um að kosningum yrði hugsanlega flýtt var það alltaf sett í samhengi við að þessi tilteknu mál yrðu kláruð fyrir þann tíma. Menn geta velt fyrir sér hvort það væri of mikil bjartsýni að það gæti tekist fyrir haustið, fyrir september, október. En hvað sem því líður, þá hefur þetta alltaf verið sett í samhengi við þessi verkefni.“
Kennir stjórnarandstöðunni um
Sigmundur sagði í viðtalinu við RÚV að það væri á ábyrgð stjórnarandstöðunnar að málin, sem hann vill að kláruð séu, hafi ekki klárast.
„En það sem gerðist hins vegar í beinu framhaldi af þessum fundi á tröppunum er að stjórnarandstaðan lýsti yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Hún með öðrum orðum tók ekki þátt í samstarfi um þessi mál, hún reyndi að fella ríkisstjórnina. Það mistókst. Eftir það hafa menn tekist á um ýmis mál og kannski farið meiri tími í þau heldur en hefði þurft að vera.“
Þegar Sigmundur var spurður hvort hann teldi ekki rétt að halda kosningar í haust lýsti hann þeirri stefnu að boða kosningar í vor sem hvata fyrir stjórnarandstöðuna til að samþykkja mál ríkisstjórnarinnar. „Ég hef oft haldið því opnu, ef menn langaði til þess að viðhalda þessum hvata, til þess að kjósa fyrr, ef menn teldu að stjórnarandstaðan væri það áfram um að komast í kosningar sem fyrst, að þeir myndu gera eitthvað til þess að sú yrði raunin, þá yrði það allt í lagi.“
„Kannski er hægt að stefna að því í sameiningu að það verði kosið fyrir áramót.“
Nú sé hins vegar tekið að halla sumri. „Nú erum við komin allt í einu komin í þau stöðu að sumarið, það er ekki að klárast, en það er langt liðið á sumar, og menn eiga enn eftir að klára nokkur grundvallarmál. Mál sem þurfa að klárast áður en kemur til kosninga,“ sagði Sigmundur Davíð.
Þegar gengið var á eftir Sigmundi með tímasetningu kosninga sagði hann: „Kannski er hægt að stefna að því í sameiningu að það verði kosið fyrir áramót.“
Boðaði ofsafengin viðbrögð
Sigmundur boðaði fulla endurkomu sína í stjórnmál í bréfi til flokksmanna í fyrradag. „Á næstunni mun ég því aftur hefja fulla þátttöku í stjórnmálabaráttunni. Það mun vekja viðbrögð. Látið það ekki slá ykkur út af laginu. Viðbrögð, jafnvel ofsafengin viðbrögð gegn mér og okkur eru nú sem fyrr til marks um að andstæðingar telji sér að sér standi ógn af okkur.“
Hann gaf til kynna að áhrifamiklir andstæðingar stæðu gegn baráttu Framsóknarflokksins fyrir almannahagsmunum, en nefndi ekki hverjir andstæðingarnir væru eða útskýrði hvernig þeir ynnu gegn almannahagsmunum. „Að undanförnu höfum við til dæmis kynnst því að það er ekki auðvelt að berjast fyrir almannahagsmunum þegar menn mæta eins áhrifamiklum andstæðingum og þeim sem við höfum verið að takast á við.“
Athugasemdir