Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að með ummælum sínum um tilmæli til nefndar um veitingu ívilnana hafi hún verið að vísa til leiðsagnar sem nefndin hafi fengið og felist í yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar.
Þetta kemur fram í svari Bjartar við fyrirspurn Stundarinnar um málið en eins og fram kom í morgun er ekki rétt að nefnd um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga hafi fengið tilmæli um breyttar áherslur við afgreiðslu umsókna. „Nefndin hefur ekki fengið slík tilmæli,“ segir í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar þar sem óskað var eftir upplýsingum um tilmælin sem Björt vísaði til í þingræðu.
Stundin óskaði eftir skýringum Bjartar á þessu. Í svari sínu segir hún: „Já það er auðvelt að útskýra það. Orðin „tilmæli“ og „leiðsögn“ eru í minni málnotkun mjög skyld og þegar ég ræddi þetta við Oddnýju Harðardóttur í þinginu var það sú hugsun sem ég vildi færa fram. Ég þarf að gæta að því hvernig ég orða hlutina, en ef ég segi alveg eins og er þá hafði ég ekki áttað mig á því að í notkun þessa orðs, í þessu samhengi, hefði svo ákveðna merkingu. Það sem ég var að vísa til með orðum mínum er stefna ríkisstjórnarinnar. Hún er mjög skýr í þessum málum og kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Þeirri leiðsögn hefur verið komið á framfæri til ráðuneytanna allra sem vinna nú eftir henni.“
Björt bregst einnig við fréttum Stundarinnar og Kvennablaðsins á Facebook. „Já góðan daginn. Kvennablaðið vill meina að ég hafi sagt Oddnýju Harðardóttur ósatt. Glæpurinn snýst um að ég notaði orðið "tilmæli" þegar við vorum að ræða stefnu ríkistjórnarinnar um ívilnanir til mengandi stóriðju, sem þessi ríkisstjórn ætlar að láta af. Staðreyndin er sú að orðin "tilmæli" og "leiðsögn" eru í minni málnotkun mjög skyld. Vafalaust þarf ég að vanda mig betur, orða hlutina á meira lögfræðimáli? Það verður dálitið ný ég, en ok. En svo það sé alveg skýrt þá var ég að vísa til stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er mjög skýr í þessum málum og kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Og eftir honum vinna nú öll ráðuneytin.“
Þá gagnrýnir hún Stundina fyrir að hafa ekki birt svar sitt strax. „Ég svaraði reyndar blaðamanni Stundarinnar varðandi þetta mál, en honum hefur ekki fundist það mikilvægt að birta mitt svar í sinni grein. Geri það þá bara hér,“ skrifar hún og birtir svar sitt í heild.
Athugasemdir