Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Píratar vilji kollvarpa sjávarútveginum á Íslandi og jafnframt stjórnarskránni.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem hann birti í dag. Þá hæðist hann að hugmyndum um borgaralaun og ýjar að því að Píratar vilji að iðjuleysingjar geti „setið heima við tölvuna á borgaralaunum, legið í sófanum hjá sálfræðingum daginn út og inn og látið hvítta tennurnar, allt í boði skattgreiðenda“.
Sigurður Hólm Gunnarsson, iðjuþjálfi og forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík, vakti mikla athygli í síðustu viku þegar hann skrifaði pistil um andleg veikindi sín, geðheilbrigðiskerfið á Íslandi og fordóma sem andlega veikt fólk þarf að þola.
Hann svarar Brynjari á Facebook-síðu sinni og skrifar: „Að þingmaður Sjálfstæðisflokksins geri ítrekað lítið úr fólki sem þarf á aðstoð sálfræðinga og tannlækna að halda er forkastanlegt og flokki hans til skammar.“
Vísar hann þar til ummæla Brynjars frá því í síðustu viku, þegar þingmaðurinn hæddist að að áformum Pírata um að tannlækningar og sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd fyrir alla landsmenn með sama hætti og gildir um aðra heilbrigðisþjónustu.
Brynjar er á meðal þeirra sem gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík sem fram fer þann 3. september næstkomandi.
Athugasemdir