Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir að stjórnarandstaðan máli flokkana Viðreisn og Bjarta framtíð upp sem viljalaus verkfæri Sjálfstæðisflokksins. „Þú hlýtur að þekkja orðræðuna vegna þess að þú hlýtur að vera ein af skipuleggjendunum,“ sagði hún við Birgittu Jónsdóttur í umræðum á Alþingi í dag.
Birgitta Jónsdóttir hafði gert að umtalsefni ummæli sem Hanna Katrín lét falla í Silfrinu um helgina. Hélt Hanna Katrín því fram að fylgistap Viðreisnar og Bjartrar framtíðar mætti meðal annars rekja til þess að stjórnarandstaðan hefði lagt áherslu á að „heimfæra góðu verkin upp á Sjálfstæðisflokkinn“ og að „gera hag hans mikinn þarna og að sama skapi draga úr störfum hinna stjórnarflokkanna“.
Birgitta vitnaði í pistil eftir blaðamanninn Atla Þór Fanndal þar sem rýnt er í ummæli Hönnu Katrínar og samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndir fyrir að hafa gefið eftir helstu stefnumál sín.
„Mig langar í ljósi þessa að spyrja háttvirtan þingmann hvað það sé nákvæmlega sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum gert til að ausa lofi á Sjálfstæðisflokkinn. Hvað ætlar háttvirtur þingmaður að gera til að bregðast við því vantrausti sem hefur komið fram í skoðanakönnunum undanfarið, annað en að beina fingri að einhverjum öðrum?“ spurði Birgitta.
Hanna Katrín þakkaði Birgittu fyrir tækifærið til að útskýra ummæli sín. „Þetta er rétt eftir mér haft. Misskilningurinn er hins vegar sá að ég var alls ekkert að kvarta. Þetta var bara viðurkenning. Þetta er eins og að vera tekin úr umferð í handboltanum í gamla daga,“ sagði hún og tók fram að hún hefði aðeins nefnt þetta í framhjáhlaupi í sjónvarpsþættinum. Þá taldi hún upp verkefni sem ríkisstjórnin væri að vinna að þökk sé Viðreisn, svo sem breytingar á lagaumhverfi mjólkuriðnaðarins, endurskoðun búvörusamnings og innleiðingu jafnlaunavottunar, og benti á að kjörtímabilið væri einungis nýfarið af stað.
„Ætíð spyrt okkur við Sjálfstæðisflokkinn,
sem litla bróður, sem litla valdalausa aðilann,
að við höfum gengist honum á hönd“
„Öll þessi mál eru unnin með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Öll voru þau uppi á borðinu í kosningabaráttunni,“ sagði Hanna Katrín. Á þessum tímapunkti kallaði Birgitta fram í fyrir henni og spurði hvort Viðreisn hefði verið kosin til að draga vagn Sjálfstæðisflokksins. Hanna Katrín svaraði: „Þið hafið endalaust notið þess, svo ég svari því nú til, og það er ekki hægt annað en að fara bara í umræðu ykkar í fjölmiðlum almennt, ætíð spyrt okkur við Sjálfstæðisflokkinn, sem litla bróður, sem litla valdalausa aðilann, að við höfum gengist honum á hönd og svo framvegis. Þú hlýtur að þekkja orðræðuna vegna þess að þú hlýtur að vera ein af skipuleggjendunum. En þannig er þetta.“
Athugasemdir