Þegar þessi orð eru skrifuð eru um 1645 Íslendingar á efri árum á biðlista eftir skurðaaðgerð á augasteini af því þeir eru komnir með sjóntruflanir. Tæplega 1400 þeirra hafa beðið eftir þessari tiltölulega einföldu aðgerð í þrjá mánuði eða lengur. Þessar upplýsingar koma fram í tölum frá Landspítalanum.
Þetta er yfirleitt fólk sem er komið á eftirlaun eftir að hafa unnið og greitt skatta alla sína tíð en nú, þegar það ætlar að njóta ævikvöldsins, þarf það að búa við þá skerðingu á lífsgæðum sem fylgir því að vera með ský á auga og geta ekki gert og þeirra hluta sem það annars gæti ef sjón þeirra væri lögð með augasteinaaðgerð.
Á síðustu tólf mánuðum hefur meðalbiðtími allra þeirra sem farið hafa í augasteinagerð á Íslandi í gegnum ríkisrekna heilbrigðiskerfið, annað hvort á Landspítalanum eða hjá einkareknum augnlæknastofum sem eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands, verið tæpir 10 mánuðir. Tíu mánuðir - þetta er næstum því heilt ár - með skerta sjón. Tíu mánaða bið eftir aðgerð sem hefði verið hægt að afgreiða fyrir um 400 þúsund krónur á nokkrum klukkustundum og einstaklingurinn hefði farið heim samdægurs og sofið í rúminu sínu með betri sjón en þegar hann vaknaði um morguninn.
Athugasemdir