Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, hefur lýst því yfir að ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta krefjist þess að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna breytist töluvert mikið eigi Bandaríkin ekki að draga sig alfarið úr þátttöku í ráðinu.
Í bréfi sem Tillerson skrifaði fulltrúum Sameinuðu þjóðanna og öðrum samtökum sem berjast fyrir mannréttindum, sagði hann: „Þrátt fyrir að samtökin séu einstök í afstöðu sinni til mannréttinda, þá þarf mannréttindaráðið að fara í gegnum umtalsverðar umbætur til þess að við getum haldið þátttöku okkar þar áfram.
Í bréfinu sagði Tillerson Bandaríkin stöðugt vera að endurmeta færni ráðsins til þess að takast á við hlutverk sitt, og lýsti jafnframt yfir efasemdum um nálgun sumra meðlima þess í mannréttindum, til dæmis Sádi-Arabíu, Kína og Egyptalands. „Ef til vill deilum við ekki sömu sjónarmiðum, miðað við samsetninguna á meðlimum ráðsins.“
Þrátt fyrir það lýsti hann því yfir að Bandaríkin myndu halda þátttöku sinni í ráðinu áfram að svo stöddu til þess að „undirstrika staðfasta andstöðu okkar við hlutdræga stefnu mannréttindaráðsins í málum er snúa að Ísrael“.
Talsmenn Hvíta hússins hafa ekki viljað gefa nákvæm svör við spurningum um bréfið. Talsmaður utanríkisráðuneytisins, Mark C. Toner, sagði fréttamönnum að hann vildi ekki „ræða eða tjá sig um atriði sem tengjast samskiptum“ á milli Tillerson og þeirra aðila sem fengu bréfin frá honum. „Ég get þó sagt að við eigum í samræðum, innanhúss, sem sagt í utanríkisráðuneytinu, en einnig við tengiliði okkar, um það hvernig auka megi ábyrgð og gegnsæi í mannréttindum,“ sagði Toner við fréttamenn.
Ríkisstjórn George W. Bush neitaði að ganga í ráðið þegar það var stofnað árið 2006, af ótta við nálgun þess á málefni Ísraels. Ríkisstjórn Obama fór þó aðra leið og kaus að taka þátt til þess að reyna að breyta stefnu ráðsins innan frá, en einnig til þess að láta málefni tengd Ísrael ekki koma í veg fyrir þátttöku Bandaríkjanna í öðrum málum ráðsins.
Athugasemdir