Forsvarsmenn repúblikana flokksins í Harvard háskóla lýstu því yfir í gær að frambjóðandi flokksins til forseta „ógnaði framtíð landsins,“ og báðu á sama tíma formenn flokksins og félaga sína í röðum íhaldsmanna um að „sameinast okkur í að fordæma og draga úr stuðningi við þennan hættulega mann.“
Ákvörðunin um að hafna frambjóðandanum opinberlega var tekin fyrr í vikunni, segir forseti Harvard Republican Club, Declan Garvey, í samtali við CNN. Einhverjir meðlimir ætla sér að kjósa Hillary Clinton og enn aðrir halla sér óflokksbundna frambjóðandanum Gary Johnson. 80% repúblikana í Harvard segjast ekki ætla að kjósa Trump, 10% styðja hann og önnur 10% eru óákveðin.
„Einræðistilburðir hans og daður við fasisma eiga sér ekki hliðstæðu í sögu landsins.“
Í 800 orða yfirlýsingu sem hópurinn birti á Facebook segir að Trump búi ekki yfir skapgerðinni eða persónuleikanum sem er nauðsynlegur til þess að leiða Bandaríkin í gegnum sífellt hættulegri heim. „Einræðistilburðir hans og daður við fasisma eiga sér ekki hliðstæðu í sögu landsins. Hann vill stía okkur í sundur eftir kynþætti, efnahag og trú og gera okkur nógu hrædd og kvíðin til þess að hann komist í Hvíta Húsið.“
Kosningateymið í sjálfsvígshugleiðingum
Á miðvikudaginn heyrðust fréttir þess efnis að starfsfólk kosningateymis Donald Trump væru í sjálfsvígshugleiðingum. Eftir sífellt tryllingslegri yfirlýsingar frambjóðandans væru ráðgjafar hans að gefast upp á því að hægt væri að hafa hemil á honum.
Paul Manafort, sem fenginn var til að stýra kosningabaráttunni eftir að ljóst var að Trump yrði frambjóðandi flokksins er, samkvæmt innanbúðafólki, orðinn svo fráhverfur Trump að hann hefur í raun lagt niður öll störf. Vonir stóðu til að eftir að Manafort, sem hefur mikla reynslu í faginu, tók við baráttunni, fengi hún á sig eðlilegri blæ. Það þykir hins vegar vera að koma í ljós að Trump sé einfaldlega of óstýrlátur til þess að það gæti gengið eftir.
Athugasemdir