Ég og mamma niðri í bæ á kvennafrídaginn fyrir mörgum árum síðan.
Ég of lítil til að sjá upp á svið en nógu stór til að skynja reiðina.
Mamma í augnhæð að útskýra ástandið.
Mamma að útskýra að strákur sem klárar verkefni, fengi fleiri límmiða en ég.
Fráleitt, fáránlegt, óásættanlegt.
Hversu margar leiðir eru til til þess að segja konum að við séum minna virði en karlar?
Hversu mörg uppnefni, hversu mikið ofbeldi, hversu mörg tækifæri sem okkur eru ekki boðin?
Hversu margar vaktir, hversu erfið vinna, hversu lág laun?
Og þau segja „Konur sækja sjálfar um verr launuð störf“
Og þau segja „Konur vilja vera meira heima“
Og þau segja „Konur ráða þessu sjálfar“
Og þau segja „Konur eru frjálsar“
En það velur engin kona að vera kúguð.
Það velur engin kona að fá verri laun en karl.
Ef jafnrétti væri einfalt val, þá stæðum við ekki hér.
Við völdum ekki þessar aðstæður, okkur var ekki boðið þegar þær voru búnar til, en við veljum að berjast.
Við veljum að standa saman.
Við veljum að gefast aldrei upp.
Og við verðum að halda áfram að nýta það val sem við höfum.
Látum í okkur heyra, því við getum það ekki allar.
Ráðum fleiri konur, því það gera það ekki allir.
Verum stoltar af baráttunni, því það eru nógu margir sem rakka hana niður.
„Ef jafnrétti væri einfalt val, þá stæðum við ekki hér.“
Það er ekki val að vera kona en það er val að vera femínisti.
Ég og mamma á kvennafrídaginn fyrir mörgum árum síðan.
Mamma og fleiri konur sungu „Já, ég þori, get og vil“ og ég kunni ekki textann, en ég kann hann núna.
„Hvenær verða allir menn taldir menn?
Með sömu störf og líka sömu laun!“
Við þurfum ennþá að syngja sama lagið,
við erum ennþá að taka sama slaginn,
en við gerum það,
stoltar,
sameinaðar,
óstöðvandi!
Athugasemdir