Ráðgjafafyrirtæki Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra, OG Capital ehf., seldi þjónustu fyrir 1,2 milljónir króna árið 2012 og rúmlega 1,7 milljónir árið á undan. Þetta kemur fram í ársreikningum félagsins fyrir þessi ár. Árið 2011 starfaði Illugi sem ráðgjafi á meðan hann var í leyfi frá störfum sínum á Alþingi, meðal annars fyrir jarðvarmafyrirtækið Orku Energy en stjórnarformaður þess keypti eignarhaldsfélagið og íbúð Illuga á Ránargötu síðar af honum. Illugi fundaði með fulltrúum frá Orku Energy og kínverskum samstarfsaðila þeirra meðan á heimsókn hans til Kíns stóð síðasta mánuði.
Hann hefur sjálfur sagt að þó hann hafi einungis unnið sem ráðgjafi á árinu 2011 þá hafi hann fengið greitt fyrir þá vinnu árið 2012, eftir að hann settist aftur á þing eftir að hafa verið í leyfi frá störfum. Í svari til Stundarinnar fyrr í mánuðinum sagði hann: „Megin hluti vinnu minnar var á árinu 2011 en launagreiðslur bárust á árinu 2012 og þess vegna taldi ég rétt á sínum tíma, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að greina frá störfunum í hagsmunaskráningu þingsins.“
Athugasemdir