James K. Glassman, athafnamaður og pistlahöfundur Wall Street Journal, segir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra saki sig ranglega um að starfa fyrir vogunarsjóði. Þetta kemur fram í grein eftir Glassman sem birtist í tímaritinu í gær.
Um er að ræða þriðju greinina í ritdeilu Glassmans og Bjarna sem hófst þegar Glassman líkti Íslandi við Argentínu vegna aðgerða stjórnvalda við losun fjármagnshafta og aflandskrónuútboð. Sakaði Glassman Íslendinga um þjösnaskap gagnvart erlendum fjárfestum og aðför að réttarríkinu.
Bjarni brást skjótt við og svaraði Glassman fullum hálsi. Hann rakti hvers vegna Ísland neyddist til að grípa til fjármagnshafta á sínum tíma og leiddi rök að því að samanburðurinn við Argentínu væri fráleitur. Grein Bjarna má sjá í heild á vef fjármálaráðuneytisins.
Fram kemur í grein ráðherra að undanfarin ár hafi vogunarsjóðir „eins og skjólstæðingar herra Glassmans“ keypt krónueignir af upphaflegum fjárfestum á miklum afslætti.
„Það er eitt, og aðeins eitt líkt með Argentínu og Íslandi. Eftir efnahagshrunið í hvoru landi fyrir sig keyptu vogunarsjóðir eignir fyrir smáaura. Þegar þeir verða fyrir vonbrigðum með gróðann sem þeir fá út úr þessum viðskiptum fylgja greinar eftir talsmenn vogunarsjóða í kjölfarið,“ segir í lok greinarinnar.
Í svargrein Glassmans sem birtist í gær heldur hann fyrri málflutningi sínum til streitu og bregst jafnframt við þeim orðum Bjarna að vogunarsjóðir séu skjólstæðingar hans. Segir hann ummæli Bjarna „fullkomlega ósönn“ en málflutninginn þó „alveg eftir bókinni“. Hér að neðan má sjá skjáskot af pistlinum:
Athugasemdir