Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, segist ekki sjá nein sóknarfæri í því að Bretland eða önnur ríki gangi úr Evrópusambandinu. Eitt og sér þýði slíkt einungis að heimurinn verði lokaðri en áður. Þetta kemur fram í pistli sem birtist á vef Pawels í gærkvöldi.
Sjónarmiðin eru nokkuð frábrugðin þeim sem komið hafa fram í málflutningi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.
Þegar Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, kynnti áætlun sína um fulla útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og algjöran aðskilnað Bretlands frá innri markaði Evrópusambandsins fyrr í mánuðinum tjáði Guðlaugur Þór sig um málið í viðtali og fagnaði stefnu May. „Þetta var í anda þess sem May hefur sagt til þessa, það er að segja að Bretar verði í forystu með frjálsa verslun í heiminum. Hún er að líta til fleiri staða og svæða en bara Evrópusambandsins, og það er auðvitað fagnaðarefni ef við sjáum eitthvað gerast á því sviði.“
Pawel er ekki eins jákvæður og Guðlaugur. „Daginn sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu og yfirgefur EES-svæðið munu Íslendingar ekki lengur geta flutt óhindrað til Bretlands og Bretar munu ekki lengur geta flutt óhindrað til Íslands,“ skrifar hann.
„Vissulega má semja um annað. Vonandi verður það gert, vonandi vilja Bretar sjálfir að það verði gert. En útganga Bretlands eins og sér þýðir nákvæmlega það og ekkert annað. Regluverk ESB, þar með regluverk um frjálst flæði fólks, hættir einfaldlega að gilda með þeim kostum og ókostum sem því fylgja. Það er sá núllpunktur sem verður að ganga út frá. Úrsögn úr Evrópusambandinu er úrsögn úr Evrópusambandinu.“
Hann segist eiga erfitt með að sjá sóknarfærin sem felast í að ríki gangi úr Evrópusambandinu. „Ekki nema við notum „sóknarfæri“ í einhverri stórfyrirtækja-straumlínustjórnunarmerkingu sem „vandræði“. Vandræði sem við verðum að lágmarka og reyna að búa til eitthvað sem er kannski jafngott.“ Hér má lesa pistil Pawels í heild.
Athugasemdir