Aðalmeðferð máls fimm ára gamals íslensks drengs sem norska barnaverndin vill fá framseldan til Noregs til vistunar hjá fósturforeldrum fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Amma drengsins vill halda honum hjá sér á Íslandi, en ekki gefa hann frá sér í fóstur.
Vika er þar til dómur verður kveðinn upp í máli norsku barnaverndarinnar hér á landi en stofnunin hefur krafist þess frá því í sumar að fá framseldan fimm ára gamlan íslenskan dreng.
„Ég er bara búin að gráta í allan dag,“ sagði Helena Brynjólfsdóttir, amma drengsins, þegar Stundin ræddi við hana að lokinni aðalmeðferð í dag.
Helena flúði fyrr á þessu ári með barnabarn sitt til Íslands þegar norska barnaverndin vildi vista barnið hjá norskum fósturforeldrum til átján ára aldurs. Stundin hefur fjallað ítarlega um málið og ræddi meðal annars við Helenu sem greindi frá atburðarrásinni í viðtali við Stundina í lok júlí.
„Þetta er búið að vera í gangi síðan í desember. Tilfinningasveiflur, svefnlausar nætur og endalausar áhyggjur,“ sagði Helena sem átti erfitt með að ræða við blaðamann. Henni var mikið niður fyrir og barðist við tárin.
„Hugsum þetta aðeins. Þetta er fimm ára gamalt barn sem ég elska meira en allt. Ég gæti verið að sjá fram á það að hann hverfi algjörlega úr mínu lífi. Ég fæ aldrei að hitta hann aftur. Ég get þetta ekki.“
Athugasemdir