Myndskeið úr öryggismyndavél við Skólavörðustíg sýnir Birnu Brjánsdóttur með símann sinn í rassvasanum klukkan 05:19 aðfaranótt laugardagsins sem hún hvarf. Það er sagt taka allan vafa af því að síma hennar hafi verið stolið fyrr um kvöldið.
Í myndskeiðinu sést Birna reikul í spori að ganga upp Skólavörðustíginn þar til hún síðan beygir niður Bergstaðastræti og aftur inn á Laugaveg. Umrædd upptaka hefur verið skoðuð af lögreglu og hefur hún hjálpað til við að kortleggja för Birnu um miðborg Reykjavíkur.
„Mér finnst langlíklegast, miðað við hvernig þetta hefur þróast, að hún hafi verið með símann á sér allan tímann. Það er að segja allan tímann á meðan hún er í miðborginni og síðan hafi hún og síminn farið þessa leið til Hafnarfjarðar sem við teljum að hafi verið farin um Sæbraut og Reykjanesbraut,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og sá sem fer fyrir rannsókn málsins.
Þá barst Stundinni yfirlýsing frá Polar Seafood, útgerðinni sem á og rekur grænlenska togarann Polar Nanoq nú rétt í þessu: Þar áréttar flotastjóri Polar Seafood, Jorgen Fossheim, að engar sannanir séu fyrir einhvers konar tengingu á milli hvarfs Birnu og áhafnarmeðlima.
„Við komum til með að veita íslenskum yfirvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa þetta sorglega mál.“
„Þegar við komumst að því að íslenska lögreglan hefði greint mögulega tengingu milli hvarfs ungu konunnar og togarans Polar Nanoq, sendum við strax boð um að togaranum skyldi snúið aftur til Íslands og settum okkur þegar í samband við yfirvöld. Við komum til með að veita íslenskum yfirvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa þetta sorglega mál. Við áréttum að sem stendur eru engar sannanir fyrir nokkurs konar tengingu og þar af leiðandi hefur engin kæra verið lögð fram á hendur nokkrum í áhöfninni,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir enn fremur að útgerðin komi til með að styðja áhöfn sína og veita henni hverja hjálp sem þörf er á. Hægt er að sjá yfirlýsinguna í heild sinni hér neðst í fréttinni.
Enginn sem sést á upptökum hefur gefið sig fram
Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir í málinu þá er ljóst að hún fór út af skemmtistaðnum Húrra í Tryggvagötu og kom við á veitingastaðnum Ali Baba þar sem hún keypti sér að borða og greiddi með peningum. Síðan gekk hún Austurstræti, Bankastræti og þaðan upp Skólavörðustíg líkt og myndskeiðið sýnir. Þaðan, eins og áður segir, beygir hún niður Bergstaðastræti og inn á Laugaveg aftur þar sem öryggismyndavél nær henni á mynd í síðasta skipti um klukkan 5.25.
„Við vorum með þessar upplýsingar, sérstaklega um Bergstaðastrætið,“ segir Grímur.
Í myndskeiðinu sést hvar hvítri smábifreið er lagt á mótum Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs. Bifreiðin er hreyfingarlaus í fyrstu þrátt fyrir að vera vélin sé í gangi en svo sést þegar hún er færð en það gerist á sama augnabliki og Birna gengur nær þessum sömu gatnamótum. Grímur segir lögregluna vilja ræða við alla þá sem sjást á myndskeiðum úr miðbænum, þar á meðal ökumann bifreiðarinnar sem sést á Skólavörðustígnum. Líkt og Stundin greindi frá í gær hefur enginn af þeim sem sjást á myndskeiðunum gefið sig fram. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er hvíta smábifreiðin sem sést í myndskeiðinu leigubíll sem beið eftir viðskiptavinum.
Hafa rætt við fjölda fólks með stöðu vitnis
„Í svona rannsókn erum við að forgangsraða. Það sem við leggjum upp með í málinu, þegar við óskum eftir því að fá upplýsingar um fólk sem er á ferðinni þarna á sama tíma og hún, er að það síðasta sem við sjáum til Birnu er við Laugaveg 31, um það bil. Það er þá sem við viljum fá að vita hvað gerðist næst. Það er þess vegna sem við viljum ræða við þá sem við teljum að hafi verið næst henni á þessum tíma sem er þá rauði bíllinn og þeir sem voru á gangi þarna á sama tíma og hún,“ segir Grímur og bætir við að myndskeiðið frá Skólavörðustíg útskýrir ekki hvað gerðist eftir klukkan 5.25 þegar öryggismyndavélin á Laugavegi nær henni á mynd í síðasta sinn.
Grímur vill ekkert tjá sig um grænlenska togarann sem fjölmiðlar hafa greint frá að tengist rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu og þá ítrekar hann að enginn hafi verið handtekinn eða yfirheyrður með stöðu sakbornings. Lögreglan hafi hins vegar yfirheyrt fjölda fólks sem hefur haft stöðu vitnis í málinu. Þær yfirheyrslur muni halda áfram.
Grímur segist trúa því að málið leysist. „Já, ég er vongóður um það.“
Polar Nanoq mun væntanlega leggja að Hafnarfjarðarhöfn rétt fyrir miðnætti í kvöld.
Upptaka frá Skólavörðustíg
Yfirlýsing Polar Seafood
Lögreglan nýtur samstarfs grænlensks togara við leit að ungri konu
Íslenska lögreglan hefur nú til rannsóknar hvort einn eða fleiri í áhöfn togarans Polar Nanoq geti veitt upplýsingar um unga konu sem er leitað.
Þegar við komumst að því að íslenska lögreglan hefði greint mögulega tengingu milli hvarfs ungu konunnar og togarans Polar Nanoq, sendum við strax boð um að togaranum skyldi snúið aftur til Íslands og settum okkur þegar í samband við yfirvöld. Við komum til með að veita íslenskum yfirvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa þetta sorglega mál. Við áréttum að sem stendur eru engar sannanir fyrir nokkurs konar tengingu og þar af leiðandi hefur engin kæra verið lögð fram á hendur nokkrum í áhöfninni.
Sem fyrirtæki styðjum við áhöfn okkar og veitum henni hverja þá hjálp sem þörf er á.
Málið verður vonandi sem fyrst upplýst að fullu. Fram að þeim tíma höfum við ekki meira um það að segja.
Jørgen Fossheim,
flotastjóri hjá Polar Seafood
Upptaka frá Laugavegi
Athugasemdir