Gunnlaugur Ingvarsson, stjórnarmaður í Íslensku Þjóðfylkingunni, heldur að ný útlendingalög, sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní síðastliðinn, feli í sér að allir hælisleitendur sem koma til Íslands eigi rétt á að fá alþjóðlega vernd. Þetta kom fram þegar Stundin tók viðtal við Gunnlaug á mótmælunum í gær. Ekkert ákvæði laganna rennir stoðum undir staðhæfingu hans. Þvert á móti verða hælisveitingum Útlendingastofnunar áfram settar þröngar skorður.
Gunnlaugur sagðist hafa lesið lögin en hélt þessu samt fram. Þegar Stundin spurði hvort hann meinti að ný útlendingalög fælu í sér að allir hælisleitendur ættu rétt á að hælisumsókn þeirra yrði tekin til efnislegrar meðferðar játti hann því. Hins vegar er ljóst að ný útlendingalög kveða heldur ekki á um neitt slíkt. Til að mynda er áfram gert ráð fyrir endursendingum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Athugasemdir