Margrét Friðriksdóttir frumkvöðlafræðingur, sem hefur látið mikið til sín taka í umræðu um innflytjendur á Íslandi, segir að gefið hafi verið út skotleyfi á kristna í íslensku samfélagi. Hún hyggst fara í mál við 365 miðla vegna meintrar afbökunar á orðum hennar.
Margrét segir í samtali við Stundina að hún muni standa við þau orð sem hún lét falla í viðtali við Harmageddon í morgun. Þar sagði hún að hún muni stefna 365 miðlum fyrir meiðyrði. Hún segir að fjölmiðlafyrirtækið megi eiga von á stefnu frá sér á næstu misserum. „Það fer að koma að sumarfrí svo þetta gæti samt dregist,“ segir Margrét. Hún segist ætla láta lögmann sinn um að ákveða hvaða bætur hún muni fara fram á. Margrét neitar að upplýsa hver lögmaður hennar er en fullyrðir þó að hann vinni nú hörðum höndum að stefnu hennar.
Telur orð sín afbökuð
„Ég vil láta dæma svona lygar dauðar og ómerkar,“ segir Margrét. Að hennar sögn hafa orð hennar verið afbökuð af fjölmiðlum og hefur það valdið henni miska, bæði vegna vinnu og í einkalífi. Hún telur fjölmiðlaumfjöllun hafa skaðað hana í atvinnuviðtölum. Hún segist fyrst og fremst vera ósátt við að vera bendluð við samtökin PEGIDA. „Þessi samtök eru ekki til á Íslandi, svo hvernig get ég verið talskona þeirra?“ spyr Margrét.
Enn fremur sakar Margrét fjölmiðlar um að hafa afbakað orð hennar svo hún líti út fyrir að andstæðingur samkynhneigðra og múslima. „Þó ég bendi á staðreyndir út í heimi, staðreyndir frá Mið-Austurlöndum og Evrópu, þá þýðir það ekki að sé á móti þeim. Það er fullt af múslimalöndum þar sem samkynhneigðir eru réttdræpir,“ segir Margrét.
Las upp stefnuskrá PEGIDA
Þrátt fyrir að Margrét vilji ekki tengja sig við samtökin PEGIDA þá hefur hún ítrekað mælt þeim bót í fjölmiðlum. „Þetta eru ekki rasistasamtök. Þau undirstrika það að við viljum aðlagast. Þeir eru ekki á móti útlendinga- eða innflytjendastefnu og það er tekið sérstaklega fram [...] Þetta er mjög hófsamt og enginn rasismi í þessu,“ var haft eftir henni í frétt Vísis 14. janúar síðastliðinn. Tveimur dögum síðar mætti Margrét í Bítið á Bylgjunni og las upp þýdda stefnuskrá PEGIDA. Facebook-síða PEGIDA á Íslandi er með ríflega 3.000 læk í dag.
Varnarbarátta meirihlutans
Rætt var við Margréti í síðdegisútvarpi Útvarp Sögu í gær. Þar lýsti hún upplifun sinni af tíðarandanum.
„Það er bara búið að gefa út skotleyfi á mann af því maður er kristinn“
„Mér finnst eins og fólk hafi skotleyfi. Það er bara búið að gefa út skotleyfi á mann af því maður er kristinn og viðurkennir að maður er kristinn. Tíðarandinn er sá að fólki finnst í lagi að níðast á þannig fólki. [...] Ég er hætt að finna fyrir samkennd og náungakærleik og að fólk skiptist yfirvegað á skoðunum. Þetta er eitthvað sem maður er farinn að sakna. [...] Mér finnst tíðarandinn vera sá að meirihlutahópar eiga að lúffa fyrir viðhorfum minnihlutahópa til að mismuna á grundvelli þess að við séum ekki að mismuna minnihlutahópunum. Ég skil þetta einhvern veginn svoleiðis. Hvað með réttindi meirihlutafólksins?“ sagði Margrét á Útvarp Sögu í gær.
Margrét hefur áður kvartað undan því að málfrelsi sé heft í umræðu um innflytjendur og múslima. „Þegar heimurinn er allur að vakna og Evrópulöndin og þetta er orðin það mikil ógn í þessum löndum þar sem þessir innflytjendur eru hvað mest að þá er viðbúnaður í nánast hverju þessara landa, þannig að þetta er mjög sérkennilegt að hér á Íslandi þá megi bara ekki tala um þessa ógn og þetta sé bara einhver islamafóbía og fólk sé bara eitthvað ruglað sem leyfir sér að tala um þetta,“ sagði Margrét á Útvarpi sögu í desember síðastliðnum.
Athugasemdir