Frumvarp Illuga Gunnarssonar um heildarendurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, LÍN, var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Verið er að kynna þingmönnum stjórnarflokkanna frumvarpið, eða áður en það verður lagt fram á Alþingi. Verði frumvarpið að lögum munu vextir af námslánum þrefaldast auk þess sem tekjutenging afborgana verður afnumin. Á móti kemur að nemendur munu eiga kost á 65 þúsund króna mánaðarlegum námsstyrk.
Óhætt er að segja að frumvarpið hafi sætt töluverðri gagnrýni síðustu daga. Þannig óttast Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, að frumvarpið skerði jafnrétti til náms. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, telur einnig að breytingarnar muni draga úr jöfnuði til náms. Bandalag háskólamanna, BHM, segir breytt endurgreiðslufyrirkomulag valda bandalaginu miklum áhyggjum og þá hafi lítið sem ekkert samráð verið haft við gerð frumvarpsins. Jóhann Gunnar Þórarinsson, formaður Samtaka íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, hefur einnig sagt að ekkert samráð hafi verið við samtökin við gerð frumvarpsins.
Athugasemdir