Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundaði um lekamálið, það er meðferð trúnaðargagna í stjórnsýslunni og embættisskyldur innanríkisráðherra, í morgun. Að sögn Ögmundar Jónassonar, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, kynnti hann drög að skýrslu um málið og var hún tekin til umfjöllunar á fundinum. „Það er ljóst að nefndarmenn vilja gefa sér tíma til þess að gaumgæfa málið þannig þetta er ekki á leiðinni út úr nefnd á allra næstu dögum. En við áttum ágæta umræðu um málið,“ segir Ögmundur í samtali við Stundina.
Skýrsla stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er hugsuð sem eins konar lyktir í lekamálinu. Þar mun birtast samantekt um málið með tilvísanir í álit Umboðsmanns Alþingis og samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, við Alþingi. „Það er ljóst að þessari nefnd ber að ljúka málinu og við erum á þeirri vegferð. En henni er ekki lokið,“ segir Ögmundur en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um efni skýrsludraganna. Þá sagðist hann ekki geta sagt til um hvenær skýrsla nefndarinnar verði gerð opinber.
Athugasemdir