Stundin hefur spurt alla frambjóðendur* til forseta tíu spurninga er varða nokkur af helstu deilu og álitamálum líðandi stundar. Hér ber að líta svör þeirra við þriðju spurningunni:
Finnst þér eignarréttur, eins og yfir til dæmis auðlindum og framleiðslutækjum, mikilvægur?
Andri Snær Magnason:
Ég held að eignarétturinn skipti minna máli heldur en bara reglurnar um hvernig auðlindirnar eru skattlagðar. Krafan er að þjóðin eigi sínar auðlindir, vatnsföllin og fiskinn, en þrátt fyrir að þjóðin eigi þetta þá tryggir eignarhaldið ekki endilega að arfurinn renni til þjóðarinnar. Virðist ekki vera. Þannig að ég myndi segja að það í sjálfu sér ráði ekki úrslitum.
Ástþór Magnússon:
Eignarréttur auðlinda er ótvírætt þjóðarinnar og sem á að mínu mati aldrei að einkavæða. Þeir sem nýta sameiginlegar auðlindir samfélagsins eiga að greiða eðlilegt gjald fyrir.
Elísabet Jökulsdóttir:
Fólkið á að eiga auðlindirnar. Mér finnst algjörlega út í hött að einstaklingar eigi fiskimiðin. Þetta á að vera sameiginleg auðlind. Annars held ég að ég láti hina forsetana um þetta, einn af þessum fjörutíu og þremur.
Guðni Th. Jóhannesson:
Mér finnst að við eigum að setja í stjórnarskrá ákvæði um það að náttúruauðlindir séu í þjóðareigu svo það fari ekki á milli mála. Þetta er yfirlýsing um vilja landsmanna að svona eigi að fara með náttúruauðlindir. Síðan er það leitt í lög hvernig við svo nýtum þær í framkvæmd. Aftur vil ég samt benda á að forseti er ekki að velta vöngum yfir þessu frá degi til dags, heldur á hann að beita sér fyrir því að öll sjónarmið fái að heyrast og þegar til kastanna kemur að vilji þjóðarinnar ráði.
Guðrún Margrét Pálsdóttir:
Eignarréttur er alltaf mikilvægur og hann ber að virða samkvæmt stjórnarskrá, bæði hvað varðar eignarrétt einstaklinga og ekki síður eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum í náttúru Íslands eins og drög stjórnarskrárnefndar að nýjum ákvæðum í stjórnarskránni mælir fyrir um.
Halla Tómasdóttir:
Ég tel löngu tímabært að kveðið sé á um það í stjórnarskrá að náttúruauðlindir, sem ekki eru þegar í einkaeigu, teljist vera almannaeign. Það leiðir af sér að þeir sem njóta afraksturs auðlindanna greiði sanngjarnt afnotagjald til almennings. Framleiðslutæki og nýtingaréttur geta vel verið á hendi einkaaðila ef þeir greiða sanngjarna “leigu” fyrir afnot af auðlindinni til þeirra sem hana eiga, það er til þjóðarinnar.
Hildur Þórðardóttir:
Ég vil hafa allar auðlindir í þjóðareign. Svo er ég fylgjandi því að ríkið eigi verksmiðjur eins og sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna. Ég vil líka hafa kvótann í þjóðareign og það hvernig við gerum það verður útfærsluatriði. Við eigum svo mikið af menntuðu fólki sem getur alveg fundið leiðir þannig að útgerðirnar beri ekki skaða af. Ef við færum til dæmis afskriftarleiðina þá gætum við alveg látið bankana afskrifa lánin sem eru út af kvótanum, og þá þyrftu sjávarútvegsfyrirtækin ekki að tapa á því. Nú er ég bara að varpa upp lausnum sem menn taka ef þeir vilja, þetta er ekkert endilega mín skoðun eða eitthvað sem ég mun berjast fyrir. Vörpum bara upp öllum sjónarmiðum. Þetta er það sem ég stend fyrir, þessi nýi hugsunarháttur, í staðinn fyrir að hafa annaðhvort rétt eða rangt fyrir sér eða sigra eða tapa, að vera með okkur eða á móti þá bara vörpum við upp öllum sjónarmiðum og svo bara velur hver það sem er rétt fyrir sig eða við finnum bara hvað er besta lausnin fyrir samfélagið.
Sturla Jónsson:
Kvótinn er í rauninni í þjóðareigu. Í gegnum ákvæðið sem segir að öllum sé frjálst að stunda þá vinnu sem þeir kjósa. Það er fallinn dómur hjá nefnd innan Sameinuðu þjóðanna sem er búin að taka á þessu máli. Það voru menn sem fóru út með þetta. Þar var bent á að það er verið að brjóta rétt okkar á því að geta farið að fiska út af kvótakerfinu, og ég sá bréf hjá frá honum Steingrími J. þar sem hann sagði „við erum búin að gera þetta, koma strandveiðunum á“ og svo stendur í niðurlagi bréfsins að við ætlum ekki að gera meira en þetta. Þannig að hann er að brjóta á stjórnarskránni. Auðlindin er tryggð með atvinnuréttinum, en menn sjá það ekki. Það nefnilega segir í ákvæðinu að öllum sé frjálst að stunda þá vinnu sem þeir kjósa, en þessu má þó setja skorður krefjist almannahagsmunir þess. Það er mjög einkennilegt ef þú færð þér fimm tonna bát og ferð út með eina handfærarúllu, að það sé að skaða almannahagsmuni. Ef við virðum stjórnarskránna, þá er auðlindin tryggð, í gegnum það ákvæði. Málið er að það vantar samtöðu hjá okkur og hjá smábátasjómönnum um að ögra þessu kerfi.
* Frambjóðandinn Davíð Oddson fékk spurningarnar sendar og tækifæri til þess að svara þeim en hefur ekki gert það. Berist svör frá honum mun þeim verða bætt við jafnóðum.
Athugasemdir