Rio Tinto Group vill lækka kostnað í rekstri álversins í Straumsvík um 300 þúsund evrur, eða um tæplega 43 milljónir króna, á ári og stendur þar af leiðandi í kjarabaráttunni við starfsmenn álversins sem svo mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum upp á síðkastið. Þessi tala kom fram í máli fransks stjórnarmanns Rio Tinto á Íslandi, Jean-François Malleville, á fundi með samningamönnum starfsmanna og verkalýðshreyfingarinnar á þriðjudaginn. Fyrir þessu hefur Stundin heimildir.
Um 43 milljónir er talan sem Malleville sagðist aðspurður vilja spara í rekstrinum með því að bjóða út ýmis verk í verktöku sem áður hafa verið unnin af fastráðnum starfsmönnum. Um er að ræða rúmlega 30 störf við öryggisgæslu, hliðvörslu, matreiðslu og fleira í álverinu. Til samanburðar má geta þess að heildartekjur Rio Tinto á Íslandi voru tæplega 500 milljónir dollara í fyrra, eða sem nemur 63 milljörðum íslenskra króna. Hagræðingarkrafan nemur því 0,06 prósentum af heildarveltu Rio Tinto á Íslandi á síðasta ári.
Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, segir að Malleville hafi nefnt töluna 350 þúsund evrur sem minnstu mögulegu hagræðingu á fundinum.
Athugasemdir