Fréttir af Norður-Kóreu tengjast yfirleitt áformum þeirra um kjarnorkuvopn, mannréttindabrotum eða ástæðulausum aftökum. Yfirmenn í suður-kóresku leyniþjónustunni færðu hins vegar nýverið fréttir af öðrum toga – um líkamlegt ástand leiðtoga landsins, Kim Jong-un.
Eftir því sem leyniþjónusta Suður-Kóreu kemst næst hefur hinn háheilagi leiðtogi landsins einangraða í norðri bætt töluvert við þyngd sína undanfarin fjögur ár. Sögðu yfirmenn stofnunarinnar leyniþjónustunefnd þingsins frá því síðasta föstudag að Kim hefði bætt við sig nærri 45 kílóum síðustu fjögur árin, og telja nú að hann sé nærri 150 kílóum á þyngd.
Ástæða þess að njósnarar og aðrir fylgjast svo mikið með holdafari leiðtogans er vegna þess að versni heilsa hann verulega getur það haft mikil áhrif á stjórnarfar landsins, stöðugleika á svæðinu og þá jafnvægið milli þjóðanna tveggja.
Kálað fyrir kríu
Yfirmaður nefndarinnar segir Kim þjást af svefnleysi, sem og ógreindum sjúkdóm sem tengist gríðarlegri þyngdaraukningu hans. Hann bætti því við að norður-kóreski leiðtoginn sé undir gríðarlegu álagi, hann óttist mikið um öryggi sitt og hafi þetta leitt til þess að hann sé orðin hömlulaus ofæta, auk þess sem hann drekki í óhófi.
Fyrr í síðustu viku sýndi norður-kóreska ríkissjónvarpið óvænt stutt brot af Kim Jong sofandi á fundi Kommúnistaflokks landsins. Svefn á samkomum á vegum ríkisstjórnar Norður-Kóreu getur reynst stórhættulegur gjörningur, nema viðkomandi beri titil eins og Elskulegur og Virtur Félagi og Algjör Yfirráður Hers Kóresku Alþýðunnar. Heimildir leyniþjónustu Suður-Kóreu halda því fram að yfirmaður innan norður-kóreska hersins sem dottaði á hersýningu nálægt Pyongyang í fyrra hafi í kjölfarið verið dæmdur til dauða, af Kim Jong-un.
Athugasemdir