Þeir skattborgarar sem komið hefur í ljós að eiga aflandsfélög en hafa ekki skilað upplýsingum til skattayfirvalda í samræmi við CFC-löggjöfina um skattskil og upplýsingagjöf félaga á lágskattasvæðum, verða að jafnaði krafðir um þau gögn sem ber að skila lögum samkvæmt.
Þetta kom fram á opnum fundi um Panama-skjölin, skattahagræði og skattsvik sem haldinn var í Háskóla Íslands í dag. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor, Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri og Guðmundur Jónsson sagnfræðiprófessor héldu erindi og tóku þátt í pallborðsumræðum.
Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, tók til máls og spurði Bryndísi hvort til greina kæmi að skattayfirvöld krefðu þá aðila sem komið hefur í ljós að eiga aflandsfélög en hafa ekki skilað inn tilskyldum gögnum, um þær upplýsingar sem ber að gefa upp lögum samkvæmt.
Upplýsingar framsendar ríkisskattstjóra
Bryndís benti á að við rannsókn gagnanna um aflandsfélög Íslendinga sem keypt voru í fyrra hefði í mörgum tilvikum ekki verið mögulegt, án frekari upplýsinga frá gjaldendum, að meta hvort aðilar hefðu staðið skil á sköttum. Því hefði ríkisskattstjóri fengið meginþorra upplýsinganna í hendur og sent eigendum aflandsfélaga bréf þar sem óskað er frekari upplýsinga.
„Ég ætla það að í langflestum eða öllum þessum málum verði viðkomandi sent bréf frá ríkisskattstjóra þar sem viðkomandi er krafinn um þessi gögn,“ sagði Bryndís og vísaði sérstaklega til CFC-löggjafarinnar og þeirra skilyrða sem hún setur eigendum félaga á lágskattasvæðum. Tók hún sérstaklega fram að hún væri einungis að tala á almennum nótum en ekki um einstök mál.
Athugasemdir