Ríkissaksóknari hefur vísað frá kæru á hendur starfsmönnum lögreglunnar vegna vinnubragðanna sem viðhöfð voru við vinnslu, miðlun og birtingu svonefndrar Samantektar á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011. „Er það mat ríkissaksóknara að ekki sé grundvöllur til að hefja opinbera rannsókn vegna kærunnar og það eigi að vísa henni frá,“ segir í niðurfellingarbréfi embættisins.
Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, er höfundur skýrslunnar en í henni er fjallað um mótmælin og fjöldi fólks nafngreindur ásamt kennitölum. Þegar úrskurðarnefnd um upplýsingamál skikkaði lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að afhenda skýrsluna haustið 2014 mistókst að afmá nöfn og persónugreinanlegar upplýsingar. Í kjölfarið komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu, þann 25. febrúar 2015, að lögreglan hefði farið á svig við persónuverndarlög.
Með niðurfellingu ríkissaksóknara liggur fyrir að enginn starfsmaður lögreglunnar mun þurfa að svara til saka fyrir ólöglega skráningu og úrvinnslu persónuupplýsinga né þau mistök sem ollu því að 75 einstaklingar voru nafngreindir og kennitölur þeirra birtar.
Í skýrslunni er fjallað um börn og unglinga og fjölskyldutengsl mótmælenda; leiddar eru líkur að því að nafngreindir aðilar eigi við geðræn vandamál að stríða auk þess sem nokkrir mótmælendur eru ranglega sagðir hafa verið kærðir fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmanni. Embætti ríkissaksóknara telur ekkert af þessu gefa tilefni til að hefja sakamálarannsókn á athæfi lögreglunnar.
Athugasemdir