Í kæru mótmælenda á hendur lögreglu vegna ólöglegrar skráningar, úrvinnslu og miðlunar persónuupplýsinga í skýrslu um Búsáhaldabyltinguna og önnur mótmæli á tímabilinu 2008 til 2011 er fundið að því að Geir Jón Þórisson, skýrsluhöfundur og fyrrverandi yfirlögregluþjónn, hafi fjallað um málefni einstakra mótmælenda í fyrirlestri sem hann hélt í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins. Umræddur fyrirlestur var haldinn í Valhöll, húsakynnum Sjálfstæðisflokksins, þann 16. október 2012 undir yfirskriftinni „Aðförin að Alþingi – mótmælin við Austurvöll“. Skömmu eftir að Geir Jón hélt erindið gaf hann kost á sér í 5. til 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og í dag er hann varaþingmaður flokksins.
Eins og fram kemur í nýjasta tölublaði Stundarinnar hefur ríkissaksóknari vísað kæru mótmælenda frá. Í niðurfellingarbréfinu er því hafnað að Geir Jón hafi gerst sekur um óvarlega meðferð á persónuupplýsingum eða brot á þagnarskyldu þegar hann fundaði með sjálfstæðismönnum um mótmælin. Upptöku af umræddum fundi má sjá hér að neðan:
Í kæru mótmælendanna var hnýtt í Geir Jón fyrir að hafa greint frá því á fyrirlestrinum að tiltekinn mótmælandi hefði verið handtekinn fyrir að hafa ekki greitt vararefsingu vegna fyrri brota. „Eru slíkar upplýsingar viðkvæmar í eðli sínu og með öllu óréttlætanlegt að skýrsluhöfundur fjalli um þær á fundi stjórnmálaflokks,“ segir í kærunni.
Þá er vitnað til ummæla Geirs Jóns í fyrirlestrinum um að „ástæða þess að þeir einstaklingar sem ákærðir voru fyrir árás á Alþingi hefðu verið sýknaðir hefði verið vegna umræðu í [samfélaginu]“ og fullyrt að í slíkum fullyrðingum felist rangar sakargiftir; refsiverð háttsemi sé borin upp á fólk þótt það hafi verið sýknað af dómstólum.
Fyrirlestur „af almennum toga“
Í niðurfellingarbréfi ríkissaksóknara er fullyrt að fyrirlestur Geirs Jóns hafi verið af almennum toga. Ekki verði ráðið að skýrsluhöfundurinn hafi þar sérstaklega stuðst við skýrslu sína eða greint frá efni hennar. Fram kemur að umfjöllun skýrsluhöfundar á fundinum hafi varðað röð atvika sem voru áberandi í fjölmiðlum og almennri umræðu.
Athugasemdir