Ólafur Sigurðsson, fyrrum kennari við héraðsskólann að Núpi, hefur farið fram á að Barnaverndarstofa rannsaki formlega ásakanir Jóns Gnarr um kynferðisbrot ónafngreinds kennara við skólann. „Ég bað hann Braga [Guðbrandsson forstjóra Barnaverndarstofu] um að kanna þetta með tilvísun í orð Jóns Gnarr um kennaramisnotkun og Bragi ætlar að gera það,“ segir Ólafur í samtali við Stundina.
Lýsingar Jóns Gnarr, fyrrum borgarstjóri og núverandi framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365, á meintri hópnauðgun og barnaníði eins kennara hafa vakið mikla athygli. Í forsíðuviðtali við Fréttablaðið heldur Jón því fram að ein stúlka, „Lena“, hefði verið fórnarlamb hópnauðgunnar og einn nemandi, „Sprelli“, hafi orðið fyrir misnotkun kennara.
Bragi Guðbrandsson segir í samtali við Stundina að hann hafi fengið málið inn á sitt borð en óvíst er hvort málið verið formlega rannsakað þar sem það væri hvort sem er fyrnt. Í samtali við Stundina segir Jón að bókin sé skáldævisaga og hún verði að tala sínu máli. Hann segist ekki geta svarað því hvort frásögn um misnotkun sé skálduð.
Athugasemdir