Sá, sem skrifar ævisögu sjálfs sín – sjálfsævisögu – er í sama hlutverki og andlitsmálari – „portretmálari“. Hann er að leitast við að gefa samtíð og framtíð þá mynd af sjálfum sér þar sem fram kemur lífsreynslan, hamingja og óhamingja, erfiðleikaár, sigrarnir, arfleifðin og eftirmálin. Hve mikill afreksmaður viðkomandi var, þrátt fyrir erfiðar lífsraunir. Hvernig erfiðleikarnir mörkuðu sérhvern andlitsdrátt og hvernig unnir sigrar sköpunarverksins ljáðu svipnum líf og sköpuðu „portrettinu“ sigra og yndi í svipnum.
Þrjú uppköst að andlitsmynd
Jón Gnarr hefur nú skrifað þrjú bindi af sjálfsævisögu sinni. Öll frá því hann var unglingur. Þar má lesa um fjarska erfiða æsku – ekki af fyrst og fremst af eigin völdum heldur vegna slæms umhverfis og óheilbrigðra samferðamanna. Slæmra foreldrarhúsa, ekki síst föður. Illa innrættra kennara og „guðsmanna“ – ekki síst frá dvöl hans í Réttarholtsskóla, þar sem ég kenndi í tvo vetur sem ungur námsmaður og átti hvergi öðru en góðu að mæta, jafnt hjá kennurum, skólastjórnanda og nemendum. Tólfunum er þó kastað í þriðja og síðasta bindinu þar sem höfundur lýsir dvöl sinni í tvo vetur á Núpsskóla. Þar lýsir hann atburðum, sem enginn samtíðarmaður kannast við. Tilfærir atburðastaði, sem ekki eru til, lýsir samnemendum og athöfnum þeirra, meðal annars ofbeldisverkum og fjöldanauðgun, sem enginn samnemandi segist hafa vitað til, og tilfærir meint brot kennara gegn karlkyns nemanda, sem líkleg eru til þess að lesandi geti fagnað með söguritara að hann hafi sloppið við. Kennarar hans á Núpi – sumir, sem ég þekki sem mestu heiðursmenn – skólastjóri þar, samnemendur hans og meira að segja Birgitta alþingismaður, sem mun hafa verið hvað nánust söguritara á skólaárunum, segja allt þetta hreinan uppspuna – og Birgitta segir að söguritari eigi að biðjast afsökunar á að bera slíka lygi upp á fólk.
Sjálfur þegir söguritarinn þegar hann er spurður. Ber því við að um „skáldævisögu“ sé að ræða. Sum sé sumt satt, annað lygi. En hvað er satt og hvað lygi – því svarar hann ekki. Ber bara samferðamenn sína sökum um níðingsverk – en til hvers?
Sjálfsmyndin
„Portrettmálarinn“ er einfaldlega að reyna að draga upp þá sjálfsmynd, að á öllu þessu – öllu þessu vonda fólki og öllum þessu hræðilega umhverfi hafi hann þurft að vinna sigur. Hafi gert það og standi nú uppi sem fyrrverandi borgarstjóri – og hugsanlega forseti. Þrátt fyrir allar þessar hræðilegu kringumstaæður allt frá barnæsku, - slæmt heimili, slæman föður, slæmt samferðafólk, slæman Réttarhlotsskóla, slæman Núpsskóla, slæma kennara, slæma samnemendur – þrátt fyrir alla þessa illsku auðnaðist honum að vinna sigra fyrst sem gamanleikari, svo sem borgarstjóri, síðan sem sjónvarpsstjóri – og kannski líka sem forseti.
Öll lygin
Jón Gnarr er ekki góður „portrettmálari“. Sjálfsmynd hans er að vísu upphafin, hrukkulaus og björt. En bak við hana eru dimmir skuggar.
Orðspor alls þess fólks, sem hann fórnar í þágu sjálfsmyndarinnar. Öll lygin!
Höfundur er fyrrverandi ráðherra
Athugasemdir